16.12.2010
Þó svo ekki hafi verið litið um öxl fyrir Bikarmót Krulludeildar í þetta sinn þýðir það ekki að tölfræðin sé ekki í vinnslu. Bikarmótið var fyrst haldið 2004 þannig að mótið núna var hið sjöunda í röðinni. Hallgrímur Valsson og lið hans, Garpar, eru óumdeilanlegir drottnarar Bikarmótsins. Fjórum sinnum hafa Garpar hampað titlinum og hefur Hallgrímur stýrt liðinu í öll fjögur skiptin - og með honum hafa samtals tólf aðrir leikmenn orðið bikarmeistarar í þessi fjögur skipti. Næstu lið á eftir Görpum eru Skytturnar og Fálkar, bæði með einn bikar og ein silfurverðlaun, og svo Fífurnar með tvenn silfurverðlaun.
Næstir Hallgrími í fjölda bikartitla koma Árni Arason, Björn Sigmundsson, Gunnar H. Jóhannesson, Ólafur Hreinsson og Sigfús Sigfússon, sem allir hafa unnið bikarinn tvisvar. Árni á hins vegar þrenn verðlaun frá Bikarmótinu, því hann hefur einu sinni unnið til silfurverðlauna. Birgitta Reinaldsdóttir og Jón Hansen eiga einnig þrenn verðlaun frá Bikarmótinu, hafa einu sinni unnið mótið og tvisvar unnið til silfurverðlauna.
Eins og gefur að skilja þegar um útsláttarkeppni er að ræða eru leikir Bikarmótsins ekki margir á hverju ári. Úrslitaleikurinn þetta árið var 63. leikur í Bikarmótinu frá upphafi. Alls hafa 43 leikmenn annað hvort unnið bikarinn eða hlotið silfurverðlaun.