Karfan er tóm.
Víkingar og Björninn brugðust ekki áhorfendum í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Æsispennandi leikur liðanna
fór í framleningu og heimamenn unnu með gullmarki.
Leikir þessara liða hafa verið jafnir og æsispennandi í vetur og var leikurinn í gærkvöldi engin undantekning. Eins og á laugardaginn voru
það Bjarnarmenn sem voru fyrri í gang. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin. Úlfar Jón Andrésson kom Birninum yfir eftir þriggja
mínútna leik og Daniel Kolar bætti við öðru marki seint í fyrsta leikhluta. Meira fengu Bjarnarmenn ekki út úr þessari
heimsókn.
Víkingar gefast aldrei upp
Snemma í öðrum leikhluta minnkaði Jóhann Már Leifsson muninn í 1-2 og þegar leikurinn var um
það bil hálfnaður jafnaði Guðmundur Snorri Guðmundsson leikinn með góðu skoti. Eftir þrettán marka leik á laugardaginn var erfitt
að spá fyrir um framhaldið í stöðunni 2-2.
Það var því mikil spenna það sem eftir lifði leiks og reyndu bæði lið allt hvað af tók að koma pökknum í netið, en
án árangurs. Leiktíminn rann út og staðan enn 2-2. Því þurfti sð grípa til framlengingar og var þá fækkað um einn
útileikmann í liðunum. Eftir um sjö mínútna leik í framlengingunni náði Lars Foder að skora gullmarkið og Víkingar hirtu
því aukastigið.
Í heild voru Víkingar meira ógnandi, áttu 37 skot á markið, en Bjarnarmenn 25. Bjarnarmenn fóru líka oftar í refsiboxið og fengu tveir
þeirra að dúsa þar í 10 mínútur.
Æsispennandi lokaleikir í deildinni
Fyrir leikinn hafði Björninn 34 stig og Víkingar 33, þannig að nú standa þau jöfn
á toppnum, bæði með 35 stig. Baráttan um deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn er því í algleymingi.
Víkingar heimsækja SR í Laugardalinn 22. febrúar og ef þeir vinna þann leik verður lokaleikur þeirra gegn Birninum hreinn úrslitaleikur um
deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitum. Ef sú staða kemur upp myndi Víkingum þá reyndar duga að komast í framlenginu og
fá þannig eitt stig, en vinni Björninn leikinn þannig að bæði liðin endi með 38 stig gæti farið svo að markatala myndi skera úr um
hvort endar ofar. Liðin hafa mæst fimm sinnum í vetur. Björninn hefur unnið einu sinni, Víkingar hafa unnið tvisvar og síðan hafa liðin unnið
hvort sinn leikinn eftir framlengingu. Ef Björninn vinnur lokaleikinn eru innbyrðis viðureignir þessara liða því jafnar.
Markamunurinn er meiri hjá Birninum, þeir eru með 58 mörk í plús, en Víkingar 54, sbr. stöðuna í deildinni á vef ÍHÍ. Hér getur því allt gerst.
Fyrsta verkefni er auðvitað að mæta SR í Laugardalnum og meta svo stöðuna eftir þann leik. Sá leikur fer fram föstudagskvöldið 22.
febrúar og hefst kl. 20.15.
Lokauppgjör Víkinga og Bjarnarins í deildinni verður í Egilshöllinni laugardaginn 2. mars. SA-fólk og aðrir Akureyringar (eru til Akureyringar sem eru
ekki á bandi SA í þessu sambandi?) er því hvatt til að skipuleggja höfuðborgarreisur sínar með þessar dagsetningar í huga
því það er margsannað að krafturinn úr stúkunni skiptir máli þegar á reynir.
Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Jóhann Már Leifsson 1/1
Guðmundur Snorri Guðmundsson 1/0
Lars Foder 1/0
Andri Már Mikaelsson 0/1
Sigmundur Rúnar Sveinsson 0/1
Sigurður Reynisson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsingar: 8 mínútur
Varin skot: 23 (7+7+7+2)
Björninn
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Daniel Kolar 1/0
Hjörtur Björnsson 0/1
Ólafur Björnsson 0/1
Refsingar: 36 mínútur
Varin skot: 34 (12+10+7+5)
Sigurgeir Haraldsson var með linsuna á lofti. Smellið á myndina til að opna albúm hans úr leiknum.