Karfan er tóm.
SA Víkingar héldu suður yfir heiðar í fannfergið og mættu Bjarnarmönnum í Egilshöllinni í kvöld. Leikurinn fór í framlengingu, en okkar menn þurftu aðeins eina og hálfa mínútu til að tryggja sér sigurinn.
Það tók okkar menn ekki nema tæplega ellefu og hálfa mínútu að ná fjögurra marka forystu í fyrsta leikhluta. Andri Freyr Sverrisson, Lars Foder og Steinar Grettisson skoruðu mörk okkar menna, en við vitum ekki um fjórða markaskorarann. Bjarnarmenn náðu að minnka muninn í 1-4 skömmu eftir fjórða mark SA, en þar var Andri Helgason að verki. Þannig var staðan að loknum fyrsta leikhluta.
Fljótlega í öðrum leikhluta minnkaði Matthías Skjöldur Sigurðsson muninn í 2-4 og í síðari hluta annars leikhluta bættu Bjarnarmenn tveimur mörkum við, í bæði skiptin eftir að okkar menn voru sendir í boxið. Við vitum ekki hver skoraði þriðja mark Bjarnarins, en á 37. mínútu jafnaði Ólafur Hrafn Björnsson leikinn, 4-4. Ekki var meira skorað í öðrum leikhluta.
Ekkert var skorað í þriðja leikhluta og var því gripið til framlengingar. Strax á fyrstu mínútu framlengingar fékk Josh Gribben refsingu og var sendur í sturtu, en okkar menn létu það ekki á sig fá og aðeins um hálfri mínútu síðar skoraði Björn Már Jakobsson gullmarkið sem tryggði SA 4-5 sigur í gríðarlega mikilvægum leik gegn toppliðinu.
Helstu atvik í leiknum má sjá á vef ÍHÍ hér.