Brynjumót, Jötnaleikur og suðurferð

Frá Brynjumóti 2005. Mynd: Ásgrímur Ágústsson.
Frá Brynjumóti 2005. Mynd: Ásgrímur Ágústsson.


Hokkífólk á öllum aldri verður á fullu um helgina. Brynjumót verður hjá þeim yngstu á laugardag og sunnudag, Jötnar fá SR í heimsókn á laugardagskvöld og 3. flokkur verður á helgarmóti í Laugardalnum.

Það verður líf og fjör í Skautahöllinni frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag, því helgin hefst með hrekkjavökuskautadiskói á föstudagskvöld kl. 19.30-21.30, en síðan tekur hokkíið við á laugardagsmorgni og verður allsráðandi fram á sunnudag.

Sextánda Brynjumótið
Um helgina fer fram hokkímót í 5., 6. og 7. flokki, Brynjumótið. Fyrsti leikur hefst stundvíslega kl. 8 á laugardagsmorguninn og verður spilað nær stanslaust fram til kl. 19 um kvöldið, aðeins tekin hlé til að hefla og setja upp og taka niður ramma. Vegna mótsins fellur almenningstíminn í Skautahöllinni niður á laugardag. Mótinu verður síðan fram haldið á sunnudagsmorguninn, fyrsti leikur hefst kl. 7.40, en mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu á svellinu kl. 12.40-13.00.

Leikjadagskrá.

Eftir stutt hlé hefur helgarmót SA í yngstu flokkunum aftur fengið nafnið Brynjumót og kann félagið hjónunum í Brynju bestu þakkir fyrir stuðninginn nú, sem og í gegnum tíðina. Þetta verður 16. Brynjumótið. Myndin hér til hægri er frá Brynjumóti 2005 (Ásgrímur Ágústsson). 

Jötnaleikur á laugardagskvöld
Fjörið heldur áfram á laugardagskvöldið eftir að hlé verður gert á Brynjumótinu, því þá er á dagskránni leikur í mfl. karla á Íslandsmótinu í íshokki. Jötnar taka þá á móti liði SR og hefst leikurinn kl. 19.30.

Jötnar eru nú í 2. sæti Íslandsmótsins með 9 stig eftir fjóra leiki, hafa unnið þrjá en tapað einum. SR-ingar eru hins vegar án sigurs enn, hafa gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum og eru með tvö stig. Óhætt er að lofa hörkuleik á laugardagskvöldið.

Staðan í deildinni. 

Myndin hér til vinstri er úr leik Jötna og Fálka fyrr í haust (Sigurgeir Haraldsson).

3. flokkur á helgarmóti í Laugardalnum
Krakkarnir í 3. flokki verða á ferðinni syðra um helgina, en þá fer fram helgarmót í Skautahöllinni í Laugardal og er mótið hluti af Íslandsmótinu í 3. flokki.

Helgarmótið í Laugardalnum hefst í kvöld með leik SR og Bjarnarins, en fyrsti leikur SA er kl. 7.45 á laugardagsmorguninn, síðan gegn Birninum kl. 9.30. Á sunnudagsmorguninn er síðan leikur gegn SR kl. 8.15 og Birninum kl. 10.00.

Staðan í deildinni.