Diljá Sif með sex mörk í sigri Ásynja

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (03.09.2011)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (03.09.2011)


Ásynjur eru enn með örugga forystu á Íslandsmótinu í íshokkí eftir stórsigur á Birninum í gærkvöldi. Diljá Sif (Ás)Ynja skoraði sex af þrettán mörkum liðsins.

Upphafið á leik Ásynja og Bjarnarins var ekki ósvipað og í leik Jötna og Húna fyrr um daginn. Áhorfendur voru rétt að fá sér fyrsta sopann úr kaffiglasinu þegar Ásynjur skoruðu fyrsta markið. Það gerði Sólveig Gærdbo Smáradóttir með stoðsendingu frá íshokkíkonu ársins, Önnu Sonju Ágústsdóttur. Eina mark Bjarnarins í leiknum kom reyndar nokkrum mínútum síðar þegar Sigrún Sigmundsdóttir jafnaði leikinn í 1-1 með stoðsendingu frá Elvu Hjálmarsdóttur.

En Ásynjur hleyptu þeim ekki lengra heldur bættu við fjórum mörkum í fyrsta leikhluta, tveimur í öðrum og svo sex í þriðja leikhlutanum. Úrslitin: 13-1.

Nokkir liðsmenn Ásynja eiga við meiðsli að stríða, en það kom ekki að sök því öflugir liðsmenn úr yngra liði SA, Ynjum, hlupu í skarðið og skiluðu sínu hlutverki vel. Diljá Sif Björgvinsdóttir skoraði tæplega helming marka Ásynja, alls sex mörk af þessum þrettán. Eins og kunnugir vita er Diljá Sif leikmaður Ynja, en lána má fjóra leikmenn á milli liðanna. 

Það er hins vegar dálítið áhyggjuefni að Akureyrarliðin hafi slíka yfirburði eins og úrslit nokkurra leikja í vetur sýna. Greinilegt er að mikil þörf er fyrir það þróunarstarf sem hefur verið í gangi og rétt að spýta í lófana og efla það starf til muna því það er auðvitað best fyrir alla aðila að leikir liða í deildinni séu jafnir og spennandi.

Næsti leikur Ásynja verður laugardaginn 5. janúar þegar þær heimsækja lið Bjarnarins í Egilshöllina. Ásynjur eru sem fyrr efstar í deildinni, eru komnar með 19 stig eftir sjö leiki.

Mörk/stoðsendingar
Ásynjur
Diljá Sif Björgvinsdóttir 6/0
Sólveig Gærdbo Smáradóttir 2/3
Anna Sonja Ágústsdóttir 2/2
Védís Áslaug Valdemarsdóttir 1/2
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/2
Jónína Guðbjartsdóttir 2/0
Refsingar: 6 mínútur
Varin skot: 9 (2+5+2) 

Björninn
Sigrún Sigmundsdóttir 1/0
Elva Hjálmarsdóttir 0/1
Refsingar: 6 mínútur
Varin skot: 37 (13+3+21)

Bein atvikalýsing úr leiknum.
Staðan í deildinni.
Leikjalisti og úrslit.