Karfan er tóm.
Íslenska liðið í C-keppni Evrópumótsins í krullu gerði sér lítið fyrir í morgun og sigraði Pólverja, 7-6, í jöfnum og spennandi leik. Fyrir leikinn í morgun höfðu Pólverjar unnið alla sjö leiki sína til þessa og tryggt sér efsta sætið á mótinu.
Íslendingar komust í 3-0, en Pólverjar jöfnuðu. Aftur náðu Íslendingar forystu, 5-3, en Pólverjar jöfnuðu og komust svo einu stigi yfir fyrir lokaumferðina, 6-5. Íslendingar áttu síðasta stein í lokaumferðinni og náðu að skora tvö stig og tryggja sér sigurinn, 7-6.
Keppinautar Íslendinga um 2. sætið á mótinu, Tyrkir og Litháar, unnu einnig leiki sína í morgun og hafa unnið fimm leiki af sjö eins og Íslendingar. Íslendingar og Litháar eigast einmitt við í lokaumferðinni sem hefst kl. 14 í dag að íslenskum tíma. Á sama tíma leika Tyrkir gegn Slóvenum. Tyrkir verða að teljast sigurstranglegri en Slóvenar, en leikur okkar manna og Litháa verður væntanlega tvísýnn. Fari svo að Tyrkir vinni munu annað hvort Íslendingar eða Litháar leika aukaleik við þá um það hvor þjóðin fer upp í B-flokk. Tapi Tyrkir sínum leik verða það sigurvegarar úr leik Íslands og Litháen sem fara í B-flokk.
Á úrslitavef mótsins er, auk stöðu og úrslita í öllum leikjum, hægt að fylgjast með skori í leiknum í dag beint, þar sem mótshaldarar færa inn skorið jafnóðum eftir hverja umferð. Til að fylgjast með leik okkar manna þarf einfaldlega að smella á leikinn á listanum - sjá hér.
Árangur íslenska liðsins á mótinu er í raun frábær hvernig sem fer í leiknum í dag.