Karfan er tóm.
Íslenska liðið sat yfir í morgunumferð mánudagsins í C-keppni Evrópumótsins í krullu. Dagurinn var nýttur í gönguferðir um Strikið og mega makar og fjölskyldur liðsmanna væntanlega eiga von á dönskum jólagjöfum þetta árið.
Nú síðdegis mætti íslenska liðið liði Lúxemborgar og vann nokkuð auðveldan sigur, 8-3. Eftir að Lúxemborg skoraði 1 stig í fyrstu umferðinni unnu Íslendingarnir næstu þrjár umferðir og komust í 7-1. Þennan mun náðu keppinautarnir ekki að vinna upp.
Pólverjar hafa nú þegar tryggt sér sigur í C-keppninni, en lið þeirra er í þessari keppni af nokkuð sérstökum ástæðum. Pólverjar hafa um nokkurt skeið verið í baráttunni í efri hluta B-keppninnar, en vegna einhverra mistaka við bankamillifærslu í fyrra barst greiðsla aðildargjalds Póllands að Evrópska krullusambandinu ekki fyrir tilskilinn tíma og því fékk liðið ekki að taka þátt í EM 2010. Ekki nóg með það, heldur þarf liðið núna að byrja á "botninum", þ.e. í C-keppninni. Eins og stöðutaflan sýnir eiga þeir heima í B-keppninni og hafa nú tryggt sér þátttökurétt þar.
En aðalkeppnin stendur um annað sætið. Fyrir lokadaginn eru þrjú lið jöfn með fjóra sigra eftir sex leiki, Tyrkland, Litháen og Ísland. Því miður má álykta sem svo að íslenska liðið eigi eftir erfiðustu leikina af þessum þremur þjóðum. Íslendingar eiga eftir að leika gegn Pólverjum og Litháar eiga eftir að leika gegn Íslendingum og Rúmenum, en líklega eiga Tyrkir mestu möguleikana, eiga eftir að leika gegn botnliði Slóvena og svo Serbum.
Næstsíðasta umferðin verður leikin í fyrramálið kl. 6.30 að íslenskum tíma og mæta okkar menn þá Pólverjum. Lokaumferðin fer svo fram kl. 14 á morgun og þá mæta Íslendingar Litháum.
Öll úrslit og stöðu má finna á úrslitavef mótsins - hér.