Karfan er tóm.
Strákarnir í krullulandsliðinu náðu ekki að snúa við blaðinu í dag, töpuðu báðum leikjum dagsins, þeim fyrri eftir
framlenginu. Breytingin yfir í tyrkneskt fæði hefur sett strik í reikning liðsins.
Fyrri leikur dagsins var gegn liði Lúxemborgar og þar höfðu okkar menn leikinn í hendi sér þangað til í næstsíðustu umferðinni. Að loknum fjórum umferðum var íslenska liðið með góða stöðu, komið í 5-1 og bætti síðan við stigi strax eftir hlé og staðan orðin 6-1. Lúxemborg minnkaði muninn í 6-2 og síðan kom áfallið í sjöundu umferðinni, fimm stig frá Lúxemborgurum og forystan glötuð. Strákarnir náðu þó að jafna leikinn í áttundu og síðustu umferðinni, þannig að grípa þurfti til aukaumferðar, en þar skoruðu Lúxemborgarar tvö stig og unnu leikinn. Úrslitin: Ísland - Lúxemborg 7-9.
Við sögðum frá matarraunum okkar manna í gær - breytingin yfir í tyrkneskt fæði fór eitthvað illa í þá að því er fram kemur í færslu á bloggsíðu liðsins. Þeim raunum er ekki lokið því þeir segja frá því á bloggsíðu sinni í dag að vegna magakveisu hafi þeir þurft að mæta aðeins þrír til leiks (Jens, Jón Ingi, Óli) gegn Lúxemborg í morgun, tveir voru óvígir vegna magakveisu. Virkilega svekkjandi að hafa lagt á sig fyrirhöfn, tíma og útgjöld við að komast alla leið til Erzurum, en lenda síðan í svona raunum.
Seinni leikur dagsins var síðan gegn Króatíu og þar þurftu strákarnir enn að játa sig sigraða, úrslitin: Ísland - Króatía 3-6. Þegar þetta er ritað höfum við ekki nánari fréttir af þeim leik, aðeins úrslitin.
Króatar eru nú efstir í karlaflokki með fjóra sigra, Hvít-Rússar eru reyndar einnig taplausir eins og Króatar, en hafa leikið einum leik færra. Tyrkir hafa unnið þrjá og tapað einum, Slóvenar, Rúmenar og Lúxemborgarar hafa allir unnið einn leik, en okkar menn eru enn án sigurs.
Yfirlit um úrslit og stöðu má sjá á heimasíðu mótsins.