EM í krullu: Tvö töp í dag

Mynd: Ásgrímur Ágústsson.
Mynd: Ásgrímur Ágústsson.


Krullulandsliðið mætti Hvít-Rússum og Tyrkjum á EM í krullu í dag. Strákarnir okkar þurftu að játa sig sigraða í báðum viðureignum. Tveir leikir á morgun.

Eins og við spáðum hér í frétt fyrr í vikunni reyndist fyrsti dagurinn nokkuð erfiður - vonandi sá erfiðasti - á EM í krullu sem fram fer í Erzurum í Tyrklandi. 

Strákarnir lentu í erfiðri byrjun á móti Hvít-Rússum og má eiginlega segja að andsætðingarnir hafi verið búnir að gera út um leikinn eftir þrjár umferðir - skoruðu þrjá steina í fyrstu, þrjá í annarri og fjóra í þriðju umferð, staðan orðin 0-10 eftir þrjár umferðir. Hvít-Rússar bættu svo við tveimur stigum, en okkar menn skoruðu eitt í lokin. Úrslitin: Ísland - Hvíta-Rússland 1-12

Annar leikurinn var síðan gegn gestgjöfum mótsins, Tyrkjum. Sá leikur reyndist sem betur fer nokkuð jafnari en hinn fyrsti, en þó þurfti íslenska liðið að játa sig sigrað að lokum. Liðin skiptust á að skora í fyrri hluta leiks og eftir fimm umferðir voru Íslendingar yfir, 5-4. Tyrkir skoruðu þá þrjú stig í sjöttu umferðinni og tvö í sjöundu, en okkar mönnum tókst ekki að vinna þann mun upp í lokaumferðinni. Úrslitin: Ísland - Tyrkland  5-9.

Strákarnir leika aftur tvo leiki á morgun, fyrst gegn Lúxemborg og síðan Króatíu. Óskum þeim góðs gengis og vonum bara að fall sé fararheill.

Eitthvað virðist tyrkneski maturinn vera á móti okkar mönnum að því er fram kemur í færslu á bloggsíðu liðsins. Magaverkir og tilheyrandi að trufla einbeitinguna á fysta keppnisdegi - sjá hér.

Yfirlit um úrslit og stöðu má sjá á heimasíðu mótsins.