Fyrsta innanfélagsmótið í vetur

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.


Um liðna helgi fór fram innanfélagsmót í íshokkí hjá 4., 5. og 6. flokki. Mótin verða á dagsrká mánaðarlega, að minnsta kosti fram að áramótum. Skipt var í tvær deildir, annars vegar 4. flokk og hins vegar 5. og 6. flokk. Skipt var í þrjú lið innan hvorrar deildar.

Aðspurð um helgarmótin, sem verða einu sinni í mánuði, a.m.k. fram að áramótum, segir Sarah Smiley þjálfari að hún hafi komið þessum mótu má til að fjölga leikjum og mótum þar sem krakkarnir í yngstu aldursflokkunum spili aðeins á fjórum mótum á hverjum vetri. "Mér finnst þetta alls ekki nógu mikil leikreynsla til að geta náð að hámarka getu sína sem hokkíleikmaður. Erlendis fá ungir leikmenn yfirleitt 30-60 leiki á hverri leiktíð og við erum eftirbátar að þessu leyti. Þar sem vel tókst til á vormótinu hjá okkur í maí áttaði ég mig á að við erum með nóg af krökkum til að setja upp mótaröð hér á Akureyri. Ég áttaði mig einnig á að við höfum nóg af fólki til að sjá um þessi mót; þjálfara, dómara og foreldra sem eru tilbúnir í sjálfboðavinnu að láta þetta ganga upp. Ég er mjög ánægð með að við getum verið svona sjálfum okkur næg á Akureyri og þurfa ekki að reiða okkur alltaf á félögin í Reykjavík til að geta spilað leiki. Ég vona líka að þetta hvetji fleiri unga leikmenn til að koma og spila hokkí," segir Sarah Smiley.

Innanfélagsmótin eru á dagskrá 13.-14. október, 3.-4. nóvember og 15.-16. desember.

4. flokkur
Appelsínugula liðið vann báða leikina sína og er með 4 stig. Svarta liðið vann einn leik og tapaði einum og hefur tvö stig. Græna liðið er án stiga, en þar var Silvíu Ránar Björgvinsdóttur saknað aþr sem hún var að keppa með Ynjum. Það mun væntanlega hjálpa þeim að fá hana aftur inn í liðið í næsta móti. Sigurður Freyr Þorsteinsson í appelsínugula liðinu var atkvæðamestur um helgina, skoraði 2 stig og átti eina stoðsendingu.

5. og 6. flokkur
Keppnin var jafnari í yngri hópnum, en þar unnu öll liðin einn leik og töpuðu einum og eru liðin (appelsínugulir, svartir, grænir) með 2 stig hvert. Saga Margrét Sigurðardóttir (appelsínugulir), Leonard Birgir Stefánsson (grænir) og Sæþór Bjarki Kristjánsson (svartir) voru atkvæðamest, en þau skoruðu þrjú mörk hvert.

Fréttaritari var ekki á staðnum til að ná myndum af krökkunum en ef einhverjir foreldrar munduðu myndavélina og eru til í að deila myndum sínum hér á heimasíðunni er slíkt auðvitað vel þegið. Áhugasamir myndasmiðir geta haft samband með tölvupósti í netfangið haring@simnet.is.

Myndin með fréttinni er fengin hjá Söruh Smiley og er úr safni - við vitum ekki hver tók þessa mynd.