Karfan er tóm.
Íþróttaráðstefna verður haldin í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ, ÍSÍ og ÍBA. Tilgangur íþróttaráðstefnunnar er að skapa vettvang fyrir þá sem að íþróttum koma á margvíslegan hátt, m.a. íþróttafólk, þjálfara og foreldra, rannsakendur, nema og fagaðila, og deila þekkingu sinni og ræða viðfangsefni líðandi stundar í íþróttum. Þema ráðstefnunnar í ár er: Farsæll ferill: Íþróttaferill í meðbyr og mótbyr
Íþróttamenn í dag standa frammi fyrir margvíslegum streituþáttum eins og miklu æfingaálagi, meiðslum, kröfu um góða frammistöðu, þrýstingi frá samfélagsmiðlum og efnahagslegu óöryggi. Þetta getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu og frammistöðu íþróttamanna. Þótt mikilvægi andlegrar heilsu sé almennt viðurkennt í okkar samfélagi, hefur andleg heilsa lítið verið skoðuð í tengslum við árangur í íþróttum.
Á ráðstefnunni munu innlendir og erlendir sérfræðingar ræða hvernig einstaklings- og umhverfisþættir geta tengst andlegri heilsu og frammistöðu í íþróttum og hvað hægt sé að gera til að ýta enn frekar undir farsælan feril í íþróttum.
Fyrirlestrar ráðstefnunnar verða bæði á íslensku og ensku, ekki verður streymt frá ráðstefnunni. Húsið opnar kl. 08:30 og hefst ráðstefnan kl. 09:00.