Karfan er tóm.
Eftirfarandi frétt birtist á vef menntamálaráðuneytisins og er birt hér óbreytt.
Í kjölfar þingsályktunartillögu sem samþykkt var 3. júní 2006 skipaði menntamálaráðherra nefnd sem falið var að gera úttekt á ferðakostnaði íþróttafélaga vegna þátttöku í viðurkenndum mótum. Þá var nefndinni jafnframt falið að setja fram tillögur um hvort og þá hvernig skuli komið á fót sérstökum sjóði til að taka þátt í þeim kostnaði. Nefndin var skipuð fulltrúum menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, sveitarfélaga, íþróttaforystunnar og íþróttafélaga úr öllum landshlutum.
Athugun nefndarinnar leiddi í ljós að ferðakostnaður íþróttafélaga er mismikill, m.a. af landfræðilegum ástæðum, og aðgengi þeirra að stuðningi fyrirtækja og einstaklinga er misjafnt. Við úttekt á ferðakostnaði íþróttafélaga á viðurkennd mót var stuðst við starfsskýrslur íþróttahreyfingarinnar fyrir árið 2005. Leiða má líkur að því að ferðakostnaður íþróttafélaganna sé allt að 500 m.kr. vegna þátttöku í Íslands-, bikar- og meistaramótum. Af bókfærðum ferðakostnaði félaganna er verulegur hluti vegna ferðalaga félaga utan höfuðborgarsvæðisins.
Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að komið verði á fót ferðasjóði íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf. Jafnframt var lagt til að gerður verði þjónustusamningur við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands um umsjón og umsýslu sjóðsins.
Með hliðsjón af áætluðum ferðakostnaði íþróttafélaganna og í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um þann kostnað félaganna, sem helst er talin ástæða til að jafna, lagði nefndin til að stefnt yrði að því að árlegt framlag ríkissjóðs til ferðasjóðs yrði á bilinu 60 - 100 m.kr. og að settu marki yrði náð í jöfnum þrepum á þremur árum. Það fyrirkomulag býður upp á að í lok hvers úthlutunarárs verði lagt mat á ávinninginn með hliðsjón af hlutverki sjóðsins og, eftir atvikum, gerðar úrbætur á fyrirkomulaginu á grundvelli ítarlegra gagna sem verða til í tengslum við umsóknar- og úthlutunarferlið.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar felur í sér að stefnt verði að því að framlag til sjóðsins verði 90 m.kr. á ársgrundvelli og að því marki verði náð á þremur árum. Framlagið verði þannig 30 m.kr. árið 2007, 60 m.kr. árið 2008 og 90 m.kr. árið 2009.