Fimm frá SA í landsliðshópnum

Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Íslenska karlalandsliðið í íshokkí keppir í A-riðli 2. deildar Heimsmeistaramótsins 12.-18. apríl. Fimm SA-menn og enn fleiri Akureyringar í landsliðinu að þessu sinni.

Mótið fer fram í Skautahöllinni í Laugardal og verður fyrsti leikur okkar manna annað kvöld, fimmtudagskvöldið 12. apríl, þegar þeir mæta liði Nýja Sjálands.

Fimm leikmenn frá Skautafélagi Akureyrar eru í landsliðshópnum að þessu sinni: Ómar Smári Skúlason markvörður, varnarmennirnir Björn Már Jakobsson, Ingvar Þór Jónsson og Orri Blöndal og sóknarmaðurinn Andri Már Mikaelsson. Auk þeirra er síðan þjálfari SA, Josh Gribben, annar af aðstoðarþjálfurum landsliðsins.

Reyndar teljum við Akureyringar okkur eiga allnokkuð í öðrum leikmönnum sem nú spila ýmist syðra eða fyrir utan landsteinanna. Meðal landsliðsmanna má nefna Jón Benedikt Gíslason, Ingólf Tryggva Elíasson og Jóhann Leifsson, sem allir spila erlendis, og svo gætum við líka nefnt til dæmis Bjarnarmanninn Birki Árnason. Sjá má allan landsliðshópinn á heimasíðu ÍHÍ

Mótherjar okkar að þessu sinni eru Nýja Sjáland, Serbía, Eistland, Spánn og Króatía.

Leikjadagskráin er sem hér segir: 
Fimmtudagur 12. apríl kl. 20.00: Ísland - Nýja Sjáland
Föstudagur 13. apríl kl. 20.00: Ísland - Serbía
Sunnudaginn 15. apríl kl. 20.00: Ísland - Eistland
Þriðjudaginn 17. apríl kl. 20.00: Ísland - Spánn
Miðvikudaginn 18. apríl kl. 20.00: Ísland - Króatía