Fréttir af landsliðskeppendum á Norðurlandamóti 2009

Fréttir af landsliði Íslands á NM2009 í Malmö. Dagur 1, 2 og 3.

 

Ferðlag landsliðsins til Malmö gekk mjög vel. Miðvikudagurinn fór í það að skoða skautahöllina og nágrennið. Skautahöllin er með tvö svell, eitt keppnissvell og eitt til æfinga. Keppnissvellið er upphitað, með stórri stúku allan hringinn en æfingasvellið er hálfgerður skúr. Hópurinn fór í verslunarleiðangur, ekki hefðbundinn verslunarleiðangur að hætti íslendinga heldur til matarinnkaupa ☺ . Svo var farið snemma í háttinn til að safna orku fyrir komandi dag. Á fimmtudaginn fengu stelpurnar æfingu á æfingasvellinu, þær fóru allar yfir annað hvort stutta eða frjálsa prógrammið og gekk æfingin vel. Eftir það var farið í smá leiðangur í litla verslunarmiðstöð þar sem aðallega var farið til að skoða, ekki kaupa ;) Um kvöldið var "banquet" eða eins konar hátíðarkvöldverður. Farið var með rútu í ráðhúsið sem var mjög gamalt og fallegt, rauður dregill fyrir framan og útiskautasvell! Allir skemmtu sér mjög vel og margar myndir teknar (verða settar inn á síðuna sem fyrst). Í morgun var vaknað mjög snemma, stelpurnar áttu allar "official" æfingu á keppnissvellinu, rennt í gegnum stutta prógrammið og svo farið á hótelið þar sem þær eru nú í góðri hvíld að hlaða batteríin fyrir keppnina sem hefst í dag. Novice stelpur, Helga Jó, Íris Lóa og Sunna Hrund, keppa kl. 14:20 (13:20 að íslenskum tíma) og Junior stelpur, Dana Rut, Guðbjörg og Íris Kara, keppa kl. 16:45 (15:45 að íslenskum tíma). Við óskum þeim góðs gengis og leyfum ykkur að fylgjast með ☺