Karfan er tóm.
Þá er fyrsta keppnisdegi lokið á Reykjavíkurleikunum 2017 / Rig 2017. LSA á 9 keppendur á leikunum í ár. 6 stúlkur keppa á ISU hluta mótsins og 3 á Klúbbamótinu sem haldið er samhliða ISU mótinu.
Dagskráin á mótinu hófst með opinberum æfingum kl. 10:00, en mótið hófst svo formlega klukkan 15:00 með keppni í stúlknaflokki A / Advanced Novice A – stutt prógramm. Við eigum 4 keppendur í stúlknaflokki þær Aldísi Köru, Ásdísi Örnu, Mörtu Maríu og Rebekku Rós. Það verður að segjast að stutta prógrammið gekk mis vel hjá þeim stöllum. Marta María var fyrst norðan stúlkna til að stíga inn á ísinn. Þrátt fyrir veikindi síðustu viku gerði hún sér lítið fyrir og skautaði prógrammið sitt hnökralaust og fékk fyrir það 28.89 stig og er hún í þriðja sæti eftir stutta prógrammið efst íslensku stúlknanna. Næst inn á ísinn var Rebekka Rós. Hún skautaði fallegt prógramm, en missti út combo spinninn sinn, sem reyndist dýrkeypt og stendur hún 11. með 20.82 stig fyrir frjálsa prógrammið. Þriðja inn á ísinn var Ásdís Arna hún átti erfiðan dag í dag, missti stökk samsetningu snemma í prógramminu og hafið það áhrif á niðurstöðu dagsins, en hún er 16. með 17.83 stig eftir fyrri daginn. Fjórða inn á ísinn var Aldis Kara. Aldís skautaði fallegt prógramm og fékk hún fyrir það 25.53 stig og er hún 6. fyrir frjálsa prógrammið.
Það verður gaman að fylgjast með þeim stöllum í frjálsa prógramminu í dag. Keppni hefst hjá þeim að nýju klukkan 13:15 í dag og er mótinu streymt á síðu skautasambandsins iceskate.is.
Að lokinni keppni í Stúlknaflokki A var komið að keppni í klúbbamótinu sem haldið er samhliða ISU mótinu.
Þar áttum við þrjá keppendur að þessu sinni, þær Freydísi Jónu Jing í 10 ára og yngri A, Júlíu Rós í 12 ára og yngri A og Evu Björg í Junior B.
Freydís Jóna var fyrst norðan stúlkna inn á ísinn af þessum hóp og gerði hún nær hnökralaust prógramm og var hún meðal annars með tvöfalt Loop í fyrsta skipti í prógramminu sínu á keppni. Þessi flotta frammistaða dugði henni til sigurs með 24.62 stig. Næst var röðin komin að Júlíu Rós sem keppti í fyrsta sinn í A flokki á mótinu. Júlía skautaði fallegt prógramm, en þess er vert að geta að Júlía frumsýndi bæði nýtt prógramm og nýjan kjól á mótinu. Júlía Rós hafnaði í 5 sæti með 27.14 stig. Síðust inn á ísinn af þeim norðan stúlkum var Eva Björg. Eva Björg skautaði flott prógramm og fékk hún fyrir það 34.67 stig og skilaði það henni öðru sæti í flokknum þar sem keppni var mjög hörð og munaði mjög litlu á milli annars og þriðja sætis.