Gimli Cup: Fyrsta umferð á mánudag - ýmislegt til upplýsingar

Sigurvegarar Gimli Cup 2010 - Skytturnar
Sigurvegarar Gimli Cup 2010 - Skytturnar
Fyrsta umferð Gimli Cup fer fram mánudagskvöldið 1. nóvember. Liðsstjórar og leikmenn eru hvattir til að kynna sér vel upplýsingar um mótið og breytingar á reglum.

Leikjadagskrá - excel-skjal (liðsskipan birt með fyrirvara þar til nákvæmari upplýsingar liggja fyrir).

Endurskoðaðar mótareglur (pdf-skjal) - samþykktar á fundi mótanefndar með formanni Krulludeildar 30. október 2010.

Dregið var um röð liðanna (bókstafi) á fundi mótanefndar Krulludeildar í morgun. Mótanefndin og formaður Krulludeildar ákváðu að draga strax frekar en að gera það við upphaf fyrstu umferðar eins og oft hefur verið gert, einkum með það í huga að þar sem sjö lið taka þátt í mótinu mun eitt lið sitja yfir í fyrstu umferð og hefði því þurft að mæta til leiks án þess að eiga að spila. Vegna fjarveru tveggja leikmanna úr Fífunum (mót í Danmörku) fékk liðið bókstafinn E og situr hjá mánudagskvöldið 8. nóvember en síðan var dregið um aðra bókstafi.

Í fyrstu umferð eigast við Mammútar-Garpar, Riddarar-Víkingar, Fálkar-Fífurnar. Skytturnar sitja hjá. Leikdagar eru 1., 8., 10., 15., 22., 24. og 29. nóvember og er miðað við að miðvikudaginn 17. nóvember verði hægt að leika frestaða leiki úr fyrstu fjórum umferðunum. Komi til þess að fresta þurfi leik(jum) í síðustu þremur umferðunum verður tekið á því þegar þar að kemur.

Óskað er eftir vinnuframlagi liðanna við undirbúning svellsins og er miðað við að þau lið sem spila á braut 2 hverju sinni sjái um undirbúninginn (sjá í excel-skjali). Hugsanlegt er að tilraun verði gerð með að hefla lítið sem ekkert með litla heflinum en þess í stað heflað meira með Zamboni og síðan bólað meira en venjulega. Þetta verður metið hverju sinni.

Til að tryggja að upplýsingaflæði varðandi mótin, leikina og þá sérstaklega ef um breytingar er að ræða er krullufólk hvatt til að skrá sig á póstlista Krulludeildar - sjá reit neðst til hægri hér á þessari síðu.

 

Breyttar mótareglur

Nokkrar smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á mótareglum frá því sem verið hefur. Reglurnar má sjá hér (pdf-skjal), en hér á eftir eru útskýringar og rökstuðningur fyrir breytingum sem gerðar eru. 

  • UPPHITUN - ÆFING - SKOT AÐ MIÐJU
    Til að koma til móts við gagnrýni sem fram hefur komið á það að láta skot að miðju gilda til að raða liðum (á eftir fjölda sigra og innbyrðis viðureignum) verður skipulagi upphitunar fyrir leiki breytt, meðal annars til að gefa leikmönnum tækifæri til að átta sig betur á svellinu. Í stað þess að hver leikmaður liðs renna steini fram og til baka eins og verið hefur og síðan þurfi að taka skot verður gefinn fastur tími til upphitunar, 6 mínútur á lið. Framkvæmdin verður þannig að gefið verður merki þegar upphitun má hefjast og mun einn úr mótanefnd sjá um tímatöku og merkjagjöf. Þá hefja upphitun þau lið sem talin eru á undan í keppnisgögnum. Liðin fá sex mínútur til að hita upp og ráða því sjálf hvernig þau nýta tímann. Að loknum þessum sex mínútum er aftur gefið merki og þá lýkur upphitun (strax gengið frá öllum steinum nema einum) og liðið tekur þá skot að miðju. Þegar skot að miðju er tekið skal einn liðsmaður standa í kassanum á hinum enda brautarinnar. Skotið er síðan eins og verið hefur, leyft er að sópa og svo mæld fjarlægð frá miðju hrings að steini og skráð samkvæmt reglum. Lið skal hita upp með sömu steinum og það leikur. Líta má á þetta fyrirkomulag sem tilraun og verður reynslan metin eftir þetta mót. Liðin eru minnt á að vera tilbúin þegar að þeim kemur (annars gengur einfaldlega á þann tíma sem þau fá til upphitunar).
  • LITIR Á STEINUM
    Það lið sem talið er upp á undan í keppnisgögnum leikur með steinum með dökku handfangi (bláu eða rauðu). Þannig er tryggt að lið hitar upp með sömu steinum og það síðan spilar með.
  • MÆTING Í LEIKI
    Hingað til hefur ekki verið tiltekið sérstaklega hvernig fara skal að ef lið þarf að fresta leik eða ef lið mætir ekki til leiks á réttum tíma með nægilega marga leikmenn til að hefja leik. Í reglum WCF er ákvæði um refsingu ef lið mætir ekki til leiks og verður það látið gilda (sbr. mótareglurnar). Framkvæmdin er þannig að ef ekki eru mættir að minnsta kosti þrír leikmenn frá liði og leikur tefst um 1-15 mínútur vegna þess þá vinnur andstæðingurinn fyrstu umferðina, skorar einn stein og á síðasta stein í næstu umferð. Ef leikurinn tefst um 15-30 mínútur vinnur andstæðingurinn aðra umferð, skorar aftur einn stein og á síðasta stein í næstu umferð. Ef leikurinn tefst um meira 30 mínútur telst brotlega liðið hafa tapað leiknum og skráður sigur á það lið sem mætti til leiks.
    Að auki setti mótanefndin inn leiðbeinandi ákvæði um það hvernig liðsstjórar skulu bera sig að þegar fresta þarf leik vegna forfalla. Áherslan er þó á það að liðsstjórar hafi heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi í þessu sambandi.