Karfan er tóm.
Rétt í þessu var að ljúka leik SA og Bjarnarins í 2. flokki hér í Skautahöllinni. Leikurinn var jafn og spennandi alveg frá upphafi og lengst framan af. Fyrsta mark leiksins átti Björninn og kom það um miðja 1. lotu og var heldur klaufalegt. Eftir uppkast í okkar svæði fór pökkurinn langt upp í loft og sveif í háum boga í átt að markinu þar sem Ómar Smári Skúlason bjó sig undir að grípa auðveldan pökk. Svo fór þó ekki og pökkurinn skoppaði úr hanskanum, aftur fyrir Ómar og yfir marklínuna..
Björninn bætti svo við öðru marki skömmu síðar og refsaði SA fyrir slæm varnarmistök. Það var svo Andri Sverrisson sem minnkaði muninn fyrir SA skömmu fyrir lok lotunnar með snyrtilegu marki eftir gott gegnumbrot. Staðan var því 2 – 1 fyrir gestina eftir 1. lotu og á brattann að sækja fyrir okkar menn.
2. lota var heldur tíðindalaus og hokkíið sem boðið var uppá var ekki upp á marga fiska. Lítið sást af fallegu spili en meira af misheppnuðu einstaklingsframtaki. Okkar menn áttu töluvert af skotum á markið en Styrmir í marki Bjarnarmanna átti mjög góðan leik fyrstu tvær loturnar og drap flestar sóknir SA. Eina mark lotunnar skoraði Andri Sverris með aðstoð Steinars Grettis og Hilmars Leifssonar. Andri var þarna sjálfsagt að sýna Sergei Zak hvers hann væri að fara á mis með að velja hann ekki í U18 ára liðið, en Sergei var einmitt dómari leiksins.
Þegar 3. lota hófst var sem sagt allt í járnum, staðan 2 – 2 og útlit fyrir hörku lotu. Staðan hélst óbreytt fram yfir miðja lotu en bæði lið sýndu betri leik á endasprettinum en þau höfðu sýnt fyrstu tvær loturnar. Hjá Birninum bar mest á Úlfari Andréssyni sem var óþreytandi við að berjast fram en vantaði sárlega stuðninginn á stundum. Svo var eins og allt í einu allt SA liðið dytti í gang og skipti í fluggírinn. Siggi Árna skoraði “game-winnerinn” eftir góða sendingu frá Andra Mikaelssyni sem hafði skotið sér á “skrifstofuna hans Gretzkys”. 4. markið kom svo skömmu síðar og þá var á ferðinni Gunnar Darri Sigurðsson en mestan heiðurinn að markinu átti Andri Sverris sem var búinn að liðast eins og ormur um allt sóknarsvæðið þvert og endilangt áður en hann sendi pökkinn í beint í spaðann hjá Gunnar Darra.
Andartaki síðar bætti svo Andri Mikaelsson við 5. markinu eftir sendingu frá Steinari Grettissyni en sá síðarnefndi vann heldur betur fyrir kaupinu sínu kvöld, sló aldrei af og var sífellt ógnandi í sókninni. Það var svo varnarmaðurinn Orri Blöndal sem innsiglaði góðan 6 - 2 sigur með fallegasta marki kvöldsins, sólaði upp allan völlinn, spældi varnarmenn Bjarnarins upp úr skautunum og sett´ann með bakhöndinni upp í skeytin framhjá Styrmi í markinu – næstum því alveg eins mark og Jón Gísla skoraði í sjónvarpsleiknum um helgina.
Liðin mætast svo aftur annað kvöld kl. 20:00 hér í skautahöllinni.
Mörk SA: Andri Sverrisson 2/1, Andri Mikaelsson 1/1, Steinar Grettisson 0/2, Sigurður Árnason 1/0, Gunnar Darri Sigurðsson 1/0, Orri Blöndal 1/0, Hilmar Leifsson 0/1.
Mörk Bjarnarins: Óli Gunnarsson 1/0, Gunnur Guðmundsson 1/0, Arnar Ingason 0/1, Andri Hauksson 0/1, Úlfar Andrésson 0/1.
Brottvísanir: SA 12mín og Björninn 4mín.
Dómari leiksins var Sergei Zak og er ástæða til að hrósa honum sérstaklega fyrir góða frammistöðu.
Línudómarar voru Dúi og Helgi LeCunt.