Grein: Um krullureglur og keppnisfyrirkomulag

Meðfylgjandi er grein skrifuð af Haraldi Ingólfssyni, í eigin nafni, þar sem fjallað er almennt um keppnisfyrirkomulag í tengslum við reynsluna af Ice Cup, og farið yfir rök með og á móti mismunandi útfærslum.

Ágæta krullufólk.

Að loknu Ice Cup mótinu vil ég fyrst af öllu þakka ykkur öllum fyrir frábært mót, jafnt þeim sem unnu að undirbúningi og framkvæmd mótsins, þeim sem kepptu, þeim sem komu, þeim sem unnu fyrir okkur hin á meðan við nutum lífsins á svellinu og utan þess.

Ice Cup er í raun einstakur viðburður sem við getum haldið áfram að þróa og gera enn einstakari og sérstakari fyrir okkur sjálf og þá erlendu gesti sem hingað koma. Þar skiptir mjög miklu það sem gerist utan við svellið, utan við mótið sjálft, mannlegu samskiptin, gestrisnin, skemmtunin, samheldnin.

 

Ólíkar skoðanir á keppnisfyrirkomulagi

En Ice Cup er líka mót þar sem menn keppa að sigri, í góðu að sjálfsögðu og með anda krulluíþróttarinnar að leiðarljósi. Því langar mig, að loknu skemmtilegu móti, að varpa fram nokkrum atriðum sem ég hafði í huga þegar ég lagði fram hugmynd að keppnisfyrirkomulagi fyrir mótsstjórn Ice Cup þetta árið og ræða almennt um galla og kosti við mismunandi aðferðir við uppsetningu móta.

Undanfarin ár (2006-2009) höfum við notast við svokallað Schenkel-kerfi þar sem öll liðin eru í einum hópi og raðast í leiki eftir stöðunni hverju sinni, fyrst út frá stigum, síðan unnum umferðum og þá skoruðum steinum. Þetta kerfi hefur ákveðna kosti fyrir stutt mót en jafnframt galla sem ég tel vega þyngra en kostina.

Sú hugmynd sem ég lagði fram og farið var eftir nú, með riðlaskiptingu og svo úrslitakeppni, er að sjálfsögðu ekki gallalaus heldur, en þegar á allt er litið er það mín skoðun að kostirnir séu fleiri, sérstaklega ef bætt er úr einu eða tveimur atriðum sem hefðu mátt betur fara nú. Kem að því síðar.

 

Eitt eru líklega allir sammála um

Við uppsetningu mótsins og tillögu að fyrirkomulagi hafði ég í huga nokkur atriði sem ég vildi ná fram og taldi að það kerfi sem notað var væri betur til þess fallið en það kerfi sem við höfum notast við undanfarin ár.

Eitt er það að þegar við fáum hingað nokkur erlend lið eða lið sem eru blönduð erlendum og innlendum leikmönnum þá vil ég byggja á kerfi sem tryggir að allir innlendir þátttakendur á Ice Cup fái að spila gegn útlendingum, annað hvort heilu erlendu liði eða í það minnsta liði sem er blandað erlendum og innlendum leikmönnum. Þetta hugsa ég eingöngu til þess að við fáum öll að njóta þess að spila við önnur lið eða aðra leikmenn en við erum að spila við aftur og aftur yfir veturinn, jafnvel að lenda á móti sterkum erlendum leikmönnum/liðum sem við getum lært af.

Ég held raunar, miðað við viðbrögð frá þátttakendum á Ice Cup, að um þetta séu flestir eða allir sammála. Þegar ákveðnum fjölda erlendra leikmanna og/eða liða er náð er hægt að tryggja þetta með því að skipta liðum í riðla. Schenkel-kerfið sem við notuðum á Ice Cup 2006-2009 tryggir þetta ekki nema að jafnmörg erlend og innlend lið taki þátt, þá væri hægt að draga þannig saman í fyrstu umferðina að innlend og erlend lið mættust. Ég þekki til móts í Lettlandi, Ondulat Cup, þar sem einmitt þetta er gert. Þar eru 30 lið og fá aldrei fleiri en 15 innlend lið og 15 erlend lið að taka þátt, þannig að í fyrstu umferð spila lettnesku liðin öll við útlendinga.

 

Að ýmsu að hyggja

Annað atriði sem vert er að hafa í huga við uppsetningu móts er að lið þurfi ekki að spila tvo leiki í röð með mjög litlu hléi á milli. Vegna ákveðinna vankanta og mistaka við tilfærslu leikja kom það reyndar upp núna á Ice Cup þrátt fyrir að leikið væri í riðlum. En af þessum mistökum er auðvelt að læra og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Ég kem að því síðar í þessari grein. Hins vegar er erfitt að koma algjörlega í veg fyrir þetta með Schenkel-kerfinu og hefur reynslan einfaldlega sannað það.

Keppnisfyrirkomulagið fer auðvitað mjög eftir fjölda liða. Þægilegast er fyrir þann sem skipuleggur mótið, miðað við að notuð séu fjögur góð sett af steinum og fjórar brautir, að liðin séu sextán. Oddatala gerir ekki annað en að valda höfuðverk. Riðlaskipting er hins vegar erfiðari ef liðin eru til dæmis tólf, fjórtán eða átján, svo dæmi sé tekið. Við verðum því nokkuð að haga seglum eftir vindi hvað þetta varðar. Tafir á flugi, óvissa um það hvort öll lið kæmust til landsins og afbókun eins af erlendu liðunum gerði undirrituðum ekki auðvelt fyrir við undirbúning eða uppsetningu keppninnar sem slíkrar. Það er ekki auðvelt að þurfa að bíða fram á síðasta dag með að ákveða endanlega hvaða keppnisfyrirkomulag er valið. Þetta afsakar þó ekki ákveðin mistök sem ég gerði við uppröðun leikja og urðu þess valdandi að sum lið fengu litla hvíld á milli leikja. Ekki er þó algilt að lið tapi seinni leik af tveimur þegar lítið hlé er á milli. Ég get til gamans getið þess að Íslenski draumurinn spilaði kl. 11.30 og 14.30 á föstudeginum, og vann síðari leikinn þrátt fyrir litla hvíld á milli leikja. Norðurbandalagið lék bæði kl. 11.30 og 14.30 á föstudag og tapaði báðum leikjunum. Svarta gengið lék bæði kl. 11.30 og 14.30 á laugardag og vann báða leikina. Mánahlíðarhyskið lék bæði kl. 11.30 og 14.30 á laugardag, vann fyrri leikinn og tapaði þeim síðari naumlega.

Samliggjandi leikir á föstudeginum komu til vegna tilfærslu sem gerð var að ósk eins liðsins í tengslum við vinnutíma og frí úr vinnu. Á laugardeginum var einfaldlega ekki hægt að koma því þannig fyrir að öll liðin sem fóru í úrslitaleiki fengju að leika fyrsta leik um morguninn. Miðað var við að þau lið sem voru að leika um aðalverðlaunin og ofar í heildarröðinni spiluðu um morguninn og fengju hvíld fyrir lokaleikina, en hin ekki. Óstundvísi okkar, leikir sem drógust á langinn og leikir með aukaumferðum gerðu það einfaldlega að verkum að tímataflan fór aðeins úr skorðum.

 

Við vitum að við þurfum frí úr vinnu

Varðandi tilfærslu á leikjum fyrir lið eða leikmenn vegna vinnutíma þá vil ég geta þess að reynslan sýnir að við getum ekki haldið Ice Cup með eðlilegu móti án þess að hluti af mótinu fari fram á virkum degi eða virkum dögum. Ávallt koma fram óskir frá einhverjum leikmönnum eða liðum að færa til leiki til að auðvelda þeim að samþætta þátttökuna í Ice Cup við vinnuna. Ég hef oftast eða alltaf reynt að verða við slíkum óskum en hef þó fengið ábendingar um og hef hugleitt að ef til vill sé eðlilegast að setja mótið upp algjörlega óháð slíkum óskum, færa ekki til neina leiki vegna vinnutaps. Þegar öllu er á botninn hvolft vitum við öll að þessa tilteknu helgi mun mótið fara fram, við vitum líka að við þurfum að spila á föstudagsmorgni og eftir hádegið – við vitum semsagt NÚ ÞEGAR að við munum þurfa frí frá vinnu föstudaginn 29. apríl 2011, jafnvel líka fimmtudaginn 28. apríl 2011, ef að líkum lætur. Hinir fórnfúsustu úr okkar hópi taka sér reyndar meira frí en þetta og vil ég sérstaklega nefna formanninn okkar í því sambandi. Hann hefur átt sitt annað heimili í Skautahöllinni síðustu dagana fyrir Ice Cup undanfarin ár við undirbúning á ísnum og öðru sem snýr að mótinu, ásamt dyggum aðstoðarmönnum.

Það sem ég er að reyna að koma á framfæri er semsagt þetta: Að fenginni reynslu tel ég rétt að gefa liðum ekki kost á að óska eftir ákveðnum leiktímum vegna vinnu eða annarra aðstæðna. Þegar keppnisfyrirkomulagið liggur fyrir verði einfaldlega dregið í leiki/riðla út frá því og sú dagskrá fái að standa – óháð fríi úr vinnu eða öðrum skyldum þátttakenda á Ice Cup. Ef leikmaður eða leikmenn komast ekki til leiks er það einfaldlega vandamál liðsstjórans að mæta með að minnsta kosti þrjá liðsmenn til leiks. Í mótinu nú var gefið meira frelsi en venjulega til notkunar aukamanna ef lið voru í vandræðum og tel ég það betri aðferð en að færa til leiki. Ef lið þarf að nota leikmann sem ekki er í upphaflega skráðum fimm manna hópi liðsins þá leitar liðsstjórinn einfaldlega til mótsstjóra og liðsstjóra andstæðingsins í viðkomandi leik og fær leyfi fyrir að nota aukamann, jafnvel þótt hann hafi einnig spilað með öðru liði. Í því sambandi held ég að við verðum einfaldlega að treysta dómgreind liðsstjóra, að menn nýti sér þessa „reglu“ ekki til þess að „styrkja“ liðið þegar komið er að úrslitaleikjum, til dæmis með því að ljúga því að menn séu meiddir eða vant við látnir og fá inn „sterkari“ leikmenn í staðinn til að auka líkurnar á að ná sér í verðlaun. Þetta held ég að sé raunar ekkert vandamál og að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessari hlið.

 

Af hverju svona en ekki hinsegin?

En þá að því keppnisfyrirkomulagi sem við notuðum. Það var auðvitað ekki gallalaust og þegar leikið er í fjögurra liða riðlum kemur alltaf upp sú staða í einhverjum riðlum að keppnin er jöfn og liðin „vinna hvert annað“. Þannig fór líka nú. Í einum riðlinum vann eitt liðið alla sína leiki en hin þrjú liðin enduðu með einn sigur. Augljóslega þarf eitt af þessum þremur liðum með einn vinning að vera í öðru sæti riðilsins og þar með að fara í B-keppnina. Í öðrum riðlinum tapaði eitt lið öllum sínum leikjum en hin þrjú enduðu með tvo vinninga hvert. Augljóslega þarf eitt af þessum þremur liðum að vera í þriðja sæti riðilsins og þar með að fara í C-keppnina. Í þessari stöðu kom til þess að hin svokölluðu „LSD“ skot og „DSC“ gildi skipta máli. LSD stendur fyrir Last Shot Draw og DSC stendur fyrir Draw Shot Challenge og er meðaltal LSD-skotanna, reyndar án versta skotsins þegar um er að ræða stærri keppnir og fleiri leiki hvers liðs, en það er önnur saga. Þessi skot byggja á hæfni þeirra leikmanna og liða sem eiga í hlut. Jafnvel þótt upphitunartími sé stuttur sýnir árangurinn í þessum skotum einfaldlega aðlögunarhæfni og hæfni þeirra sem taka þessi skot, sem og þeirra sem þurfa að meta hvort nauðsynlegt sé að sópa stein eða ekki, og auðvitað hversu fast og hratt er sópað. Það er ekki tilviljun að „skosku“ liðin tvö náðu bestum árangri í skotkeppninni.

 

Betra að hafa tímatöku á upphitun?

Mælst var til þess nú að við upphitun renndi hver leikmaður liðs einum steini fram og til baka. Það kann að hafa verið of lítið, eða að minnsta kosti aðferð sem ekki hentar þegar lið þarf síðan í lok upphitunar að taka áðurnefnd LSD-skot. Mögulegt væri að gefa ákveðinn tíma, til dæmis fimm mínútur á lið og þá gæti sá sem á að taka LSD-skotið æft sig aukalega áður en upphitunartíma lýkur. Reyndar þurfum við aðeins að bæta úr einum galla til að geta notast við þá aðferð, þ.e. að setja af stað upphitun samtímis á öllum fjórum brautunum og segja eftir fimm mínútur: „Upphitun er lokið. Takið LSD-skotið.“ Það er stundvísi. Við gerðum okkur mörg (ég líka) sek um óstundvísi. Lið voru ekki tilbúin til upphitunar þegar þau áttu að vera tilbúin. Þetta held ég að við getum vel haft í huga fyrir næsta ár, þ.e. leggja meiri áherslu á stundvísina, gefa ákveðinn tíma til upphitunar og hafa hlutina þannig í fastari skorðum.

 

Jafntefli eða aukaumferð?

Ákveðin atriði í uppsetningu mótsins, meðal annars það að leyfa jafntefli í stað þess að spila aukaumferð, og meiri áhersla á að lið haldi „dampi“ og spili á eðlilegum hraða, geta gert okkur auðveldara fyrir að koma upphitunartímanum í fastari skorður. Á mótinu nú teygðist stundum óeðlilega úr leikjum, ýmist vegna þess að leika þurfti aukaumferð, lið léku of hægt, leikir hófust of seint af því að næsta leik á undan lauk of seint og svo framvegis. Af þessu getum við lært og úr því bætt.

Það atriði sem ég held eftir á að hyggja hafi verið versti gallinn á því kerfi sem við notuðum var ekki sú staðreynd að við notuðum LSD/DSC til röðunar liða í stað fjölda unninna umferða og skoraðra steina, heldur það að ekki voru leyfð jafntefli og í stað þess leikið til þrautar, aukaumferð. Augljóslega þurfa undanúrslitaleikir og úrslitaleikir að vera leiknir þannig að jafntefli eru ekki leyfð heldur leikið til þrautar því annað liðið verður jú að „komast áfram“. Hins vegar skal það viðurkennt, bæði vegna tímaskipulagsins og vegna þess að lið leikur aðeins þrjá leiki í riðlakeppninni, að eðlilegra er að leyfa jafntefli. Ef leikið er í stærra móti yfir lengri tíma, allir við alla, er ekkert óeðlilegt við það að jafntefli séu ekki leyfð. En þegar leikirnir eru aðeins þrír skiptir það svo miklu máli varðandi röð liðanna hvort aðeins eru sigrar og töp eða sigrar, jafntefli og töp.

 

Hverju hefðu jafntefli breytt?

Í riðlakeppninni lauk þremur leikjum með jafntefli eftir 8 umferðir og var því leikin aukaumferð. Í einu tilfellinu skipti það í raun ekki máli varðandi röð liðanna þegar upp var staðið. Í hinum tveimur tilfellunum skipti það máli.

Í A-riðli fór svo að Strympa vann alla leikina en hin þrjú liðin, Svarta gengið, Mánahlíðarhyskið og Víkingar, unnu hvert einn leik og því kom til þess að árangurinn í skotkeppninni réði röð liðanna. Leikur Svarta gengisins og Víkinga var jafn eftir 8 umferðir en Svarta gengið sigraði í aukaumferð. Ef gefið hefði verið eitt stig fyrir jafntefli hefðu Víkingar verið í öðru sæti riðilsins í stað fjórða, og Svarta gengið í fjórða í stað annars sætis.

Í B-riðli voru öll úrslit hrein, aldrei jafnt að loknum átta umferðum og aðeins fjöldi vinninga sem skipti máli við röðun liða.

Í C-riðli var jafnt í leik Riddara við Skytturnar eftir átta umferðir en Skytturnar sigruðu í aukaumferð. Úrslitin í riðlinum urðu þannig að Norðurbandalagið tapaði öllum sínum leikjum en hin þrjú liðin, Moscow, Skytturnar og Riddarar, voru öll með tvo sigra. Árangur í skotkeppni réði því röðinni og þar var mikill munur, Moscow var með meðaltalið 109,8 sentímetra, Skytturnar með 130,13 og Riddarar með 176,93 sentímetra. Skotkeppni getur líka skipt máli þó svo jafntefli séu leyfð og hér þurfa „skotmenn“ einfaldlega að líta í eigin barm. Að loknu móti var því haldið fram að Riddarar hafi endað C-keppni án þess að „tapa“ leik, sem er að sjálfsögðu ekki rétt, Riddarar töpuðu klárlega leiknum gegn Skyttunum, um það þarf ekki að deila. Hins vegar er það rétt að ef jafntefli hefðu verið leyfð hefðu Riddarar verið í allt annarri stöðu. Þá hefðu þeir verið efstir í riðlinum í stað þess að enda í þriðja sæti vegna slaks árangurs í skotkeppninni. Moscow hefði þá farið úr fyrsta sæti í annað og Skytturnar úr öðru sæti í það þriðja.

Í D-riðli var jafnt í einum leik eftir átta umferðir en þegar upp var staðið hefði það ekki breytt röð liðanna þó svo þau úrslit hefðu staðið. Whisky Macs unnu alla leiki sína, Garpar unnu tvo leiki og urðu í öðru sæti en í leik The Others við Fífurnar var jafnt eftir átta umferðir. Fífurnar unnu síðan í aukaumferð og náðu þar með þriðja sætinu, sem liðið hefði einnig gert á grundvelli skotkeppninnar.

Ég get því vel fallist á það að kerfið eins og það var uppsett kom sér illa fyrir Riddara og Víkinga eins og úr leikjunum spilaðist. Ég held að það einfalda atriði að leyfa jafntefli hefði verið rétt í þessu sambandi, vegna þess hve fáir leikir eru í riðlakeppninni. Öðru hefðum við í raun ekki þurft að breyta til að mótið yrði í flesta eða alla staði réttlátt og jafnt fyrir alla, nema þá leikjauppröðuninni sem áður er getið.

 

„Af hverju ekki umferðir og steinar?“

Að lokum vil ég hins vegar fjalla nokkuð um þá gagnrýni sem fram kom í samræðum manna á milli um það af hverju ekki var notast við fjölda unninna umferða og skoraðra steina til að raða jöfnum liðum. Þegar á allt er litið tel ég vera nokkra slæma galla á því að nota slíkt fyrirkomulag.

Ef fjöldi unninna umferða og skoraðra steina skiptir máli við uppröðun liða kemur alltaf upp sú spurning hvort þá eigi að banna liðum að hætta leik áður en leikið hefur verið í botn. Það er óréttlátt að miða við fjölda unninna umferða ef liðum er leyft að gefa vonlausan leik áður en tilskildum umferðafjölda er náð. Það er líka óréttlátt að banna liði að hætta leik í vonlausri stöðu áður en tilskildum umferðafjölda er náð.

 

Andi krulluíþróttarinnar

Í krullureglum Alþjóða krullusambandsins segir meðal annars í kaflanum „Andi krullunnar“ (Spirit of Curling) að krullufólk spili til að sigra en aldrei til að niðurlægja andstæðinginn. – Lið sem lendir gegn mun sterkari andstæðingi, á mjög undir högg að sækja og fær ekki að hætta leik þrátt fyrir að hann sé augljóslega tapaður, eingöngu vegna þess að fjöldi unninna umferða skiptir máli upp á röðun liða, það lið er niðurlægt. Reyndar ekki af andstæðingnum, heldur af mótshöldurum. Það er ekki gott.

Einnig má spyrja: Hvernig skal reikna fjölda unninna umferða og skoraðra steina ef lið getur ekki mætt til leiks og gefur leikinn? Sigurliðið fær „ókeypis“ sigur en á það þá líka að fá „ókeypis“ umferðir og steina? Eða á það að fá bara sigurinn en ekki skráðar neinar unnar umferðir og enga skoraða steina? Það myndi setja liðið í vanda gagnvart liðum sem hugsanlega enda með jafnmörg stig en hafa fengið að spila alla sína leiki og safna umferðum og steinum.

 

Stærðfræðileg útilokun

Það er alsiða og raunar eðlilegt í krulluleik að þegar lið getur stærðfræðilega séð ekki lengur jafnað eða unnið leik þá er leik hætt. Til dæmis ef munurinn er fjórir steinar, 7-3, fyrir lokaumferðina og þegar líður á lokaumferðina nær liðið sem hefur yfirhöndina að skjóta út steinum andstæðinganna hverjum á fætur öðrum þar til fimm steinar eru farnir úr leik, aðeins þrír eftir og liðið sem er undir getur þá stærðfræðilega aðeins komist í 6 stig. Þá er enginn tilgangur með því að halda leik áfram og eðlilegt að liðið sem er undir játi sig sigrað. Leik lokið og leikmenn takast í hendur. Þar með er lokaumferðin x-uð út, hvorugur vann lokaumferðina og úrslitin einfaldlega 7-3.

 

„Tapaður“ leikur – á að leika áfram?

Ef leikur þróast þannig að annað liðið skorar og skorar en hitt ekki þá er óréttlátt, ósanngjarnt og gegn anda krulluíþróttarinnar að meina liðinu sem á undir högg að sækja að gefa leikinn þótt ekki sé búið að leika tilskilinn fjölda umferða. Segjum til dæmis að leikur eigi að vera átta umferðir. Ef staðan er til dæmis orðin 10-1 eftir sex umferðir er óeðlilegt að neyða liðið sem er undir til að spila tvær umferðir í viðbót, bara af því að talning unninna umferða skiptir máli upp á röðun liða.

 

Tímataka og umferðatalning í framkvæmd

Það hafa komið upp vafaatriði varðandi fjölda unninna umferða í því kerfi sem við höfum nokkrum sinnum notað á Ice Cup, að nota leikklukku og láta hana telja niður, til dæmis 90 mínútur, klára síðan þá umferð sem stendur yfir þegar flautan gellur og svo aðra til. Öllum hlýtur að vera ljóst að lið spila mishratt og reynslan sýnir að sumir leikir hafa aðeins orðið 6 umferðir og sumir 8 umferðir undir þessum reglum. Lið sem spilar mjög hægt getur þannig haft sæti í úrslitum af andstæðingnum, ef til þess kemur að lið eru jöfn og fjöldi unninna umferða sker úr um röð þeirra. Þannig geta lið til dæmis endað jöfn að stigum og fjöldi unninna umferða ráðið því hvort liðið fer í úrslit og hvort ekki.

Í þessu sambandi langar mig til að rifja upp Ice Cup 2006. Þegar upp var staðið voru þrjú erlend lið efst fyrir úrslitaleikina en því næst komu Víkingar og Skytturnar, bæði með 6 stig. Víkingar unnu 17 umferðir en Skytturnar 16. Víkingar léku því til úrslita um bronsið en Skytturnar sátu eftir í fimmta sætinu. Þegar leikir þessara liða eru skoðaðir sést að bæði liðin spiluðu 31 umferð, þ.e. sex umferðir í öllum leikjum nema einum, sem fór í sjö umferðir (hjá Víkingum gegn Norðan 12 og hjá Skyttunum gegn Fálkum).

Ef ég man rétt kom upp umræða og jafnvel óformleg eða formleg kvörtun frá Skyttunum eftir lokaleik þeirra, sem var gegn Ókunnugum, liðinu sem að lokum stóð uppi sem sigurvegari mótsins. Bið ég menn um að leiðrétta mig ef þetta er rangt munað. Umræðan var sú að í lok leik Ókunnugra gegn Skyttunum hafi verið lítið eftir á klukkunni sem taldi niður og þá hafi fyrirliði Ókunnugra, Bandaríkjamaðurinn Richard Maskel, viljandi tafið leikinn þó svo hann hafi í raun verið unninn, eingöngu til að þurfa ekki að þreyta sig á að spila eina umferð í viðbót. Leikurinn varð aðeins sex umferðir og lauk með 7-2 sigri Ókunnugra. Nú má halda því fram að ef Ókunnugir hefðu ekki tafið leikinn (viljandi eða óviljandi) þá hefðu Skytturnar fengið tækifæri til að leika eina umferð í viðbót, hugsanlega unnið þá umferð og þar með náð Víkingum í fjölda unninna umferða. Hefðu Skytturnar leikið þessa einu umferð til viðbótar og skorað tvo steina hefði liðið farið í bronsleikinn í stað Víkinga. Í sama móti græddi mitt lið, Fálkar, á því að „niðurlægja“ andstæðinginn. Af fyrstu fjórum leikjunum unnu Fálkar aðeins einn leik og í lokaumferðinni lentum við á móti liði sem skipað var óreyndum leikmönnum sem höfðu ekki spilað krullu reglulega. Fálkar unnu allar umferðirnar í þessum leik, leiknum lauk með 17-0 sigri. Fálkar enduðu efstir af þeim liðum sem fengu fjögur stig, náðu áttunda sætinu, jöfnuðu við Bragðarefi í fjölda unninna umferða en skoruðu fleiri steina. Í anda krullunnar hefði verið eðlilegt að liðið 2XD hefði fengið að hætta leik eftir fimm umferðir þegar staðan var 10-0.

Eins og sjá má af ofanrituðu fylgja því ákveðnir gallar að miða við fjölda unninna umferða til að raða liðum ef þau eru jöfn að stigum. Þar getur tilviljun ráðið för, til dæmis að eitt lið fær að leika gegn „nýliðunum“ en annað ekki, sem getur gefið tækifæri til að ná góðu forskoti í unnum umferðum. Við tímatöku kemur líka upp sú staða að hægt er – viljandi eða óviljandi – að hafa af liðum tækifærið til að hækka sig um sæti, einfaldlega með því að tefja eða spila of hægt.

Þegar á allt er litið tel ég því eðlilegt að miða við innbyrðis viðureignir og LSD-skot til að raða liðum sem eru jöfn, með þeirri breytingu frá Ice Cup 2010 að leyfa jafntefli og hafa nákvæmari stjórn á tíma til upphitunar. Ef fjöldi liða býður upp á riðlaskiptingu mun ég því áfram leggja til að nota svipað fyrirkomulag og notað var nú.

 

Umfram allt okkur til ánægju þó

Fyrst og síðast þurfum við þó að muna að njóta leiksins, spila okkur til ánægju um leið og við stefnum að sjálfsögðu til sigurs. En til að auka ánægjuna þurfa reglurnar að sjálfsögðu að vera réttlátar og skýrar.

Krullukveðjur,
Haraldur Ingólfsson.