Gríðarlegt fjölmenni á fjölskyldudegi

Mynd: Ásgrímur Ágústsson
Mynd: Ásgrímur Ágústsson


Íslandsbanki bauð öllum á skautasvellið á laugardaginn. Mörg hundruð manns á svellinu.

Opið var fyrir almenning og frítt á svellið í boði Íslandsbanka sl. laugardag kl. 13-18. Strax við opnun var fólk mætt í Skautahöllina og tilbúið að fara inn á svellið um leið og heflun lauk. Góðir gestir voru mættir til að skemmta börnum á öllum aldri, þau Sigga Beinteins og María Björk frá Söngvaborg ásamt hinni þéttvöxnu mörgæs Georg. Börnin kunnu vel að meta sönginn eins og myndir Ásgríms Ágústssonar frá fjölskyldudeginum sýna glöggt. Fimm iðkendur úr Listhlaupsdeild Skautafélagsins mættu svo á svellið um þrjúleytið og sýndu listir sínar við mikinn fögnuð gesta. Foreldrar hokkíbarna sáu um að allir fengju heitt kakó, kringlur og kleinur og starfsfólk félagsins var á þönum til að tryggja að allt færi vel fram.

Ekki fór fram formleg talning á gestum en óhætt er að fullyrða að mörg hundruð manns hafi lagt leið sína í Skautahöllina á laugardaginn. Til dæmis má nefna að keypt voru þúsund glös undir kakóið og voru innan við þrjátíu eftir þegar yfir lauk. 

Ekki var annað að sjá en gestirnir kynnu vel að meta þetta framtak Íslandsbanka, gleðin skein úr hverju andliti og eflaust voru þarna á ferðinni bæði listhlaups- og hokkísnillingar framtíðarinnar sem þarna stigu sín fyrstu spor á svellinu. Ungir jafnt og aldnir, reyndir og óreyndir skemmtu sér vel á svellinu á laugardaginn og þar með var tilganginum náð.

Hirðljósmyndari Skautafélagsins, Ásgrímur Ágústsson, leit við á fjölskyldudeginum og smellti af nokkrum myndum - þær má sjá í myndaalbúmi frá deginum.