Karfan er tóm.
Heilbrigðisteymi Skautahallarinnar á Akureyri, sem var stofnað síðastliðið haust að frumkvæði Jóhanns Þórs Jónssonar, hefur nú starfað í heilt tímabil. Heilbrigðisteymið hefur reynst frábærlega fyrir íþróttastarfsemi Skautahallarinnar og hefur skilað af sér greinargerð af tilefni þessara tímamóta.
Í greinargerð teymisins kemur fram að það hafi staðið vaktina á 53 viðburðum á tímabilinu september til apríl, og nær alltaf náð að manna þá sem er frábær árangur í ljósi þess að teymið starfar eingöngu á sjálfboðaliðagrunni. Teymið, sem nú samanstendur af 14 einstaklingum – flestir úr foreldrahópi iðkenda íshokkís – er skipað einstaklingum með heilbrigðismenntun, þar á meðal læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og sjúkraflutningamönnum. Teymið hefur sinnt viðveru í upphitun og á meðan leik stendur með tveimur aðilum á viðburðum meistaraflokka, U18 og U16 og einum aðila á öllum viðburðum yngri flokka sem og helgarmótum. Teymið hefur brugðist við með faglegum hætti þegar óhöpp eða veikindi hafa átt sér stað, bæði meðal leikmanna, starfsfólks og áhorfenda. Teymið heldur einnig skrá yfir öll óhöpp sem verða í leikjum og á æfingum til að greina umfang og eðli meiðsla og koma upplýsingum áfram til viðeigandi aðila.
Á þessum tímamótum hefur verið ákveðið að víkka út enn frekar hlutverk teymisins sem mun nú einnig taka virkan þátt í forvarnarstarfi og fræðslu, bæði fyrir iðkendur og foreldra, auk þess að veita þjálfun og leiðsögn fyrir starfsfólk og þjálfara Skautahallarinnar um hvernig bregðast skuli við óhöppum. Skautafélagið er ákaflega þakklátt fyrir þetta ómetanlega framlag sem hefur stórbætt öryggi og vellíðan iðkenda og gesta Skautahallarinnar.