Karfan er tóm.
Íslenska kvennalandslið í íshokkí tapaði í gærkvöld fyrir Spáni í lokaleik Heimsmeistaramótsins í íshokkí í deild 2. II. Ísland þurfti nauðsynlega á sigri að halda til þess að krækja sér í bronsverðlaun en þær Spænsku fengu óskabyrjun í leiknum og komust í 3-0 áður en Ísland náði að minnka munninn í 3-1 en þannig enduðu leikar. Sunna Björgvinsdóttir var valinn besti leikmaður Íslands á mótinu og Eva Karvelsdóttir var valinn besti varnarmaður mótsins.
Um 800 manns voru mætir í Skautahöllina í gær til þess að styðja okkar stúlkur. Ísland byrjaði leikinn af krafti og náðu tveimur vel útfærðum sóknarlotum strax í byrjun leiks. Það kom sem köld vatnsgusa í andlit íslenska liðsins þegar Spánverjar skoruðu fyrsta mark leiksins eftir aðeins tveggja mínútna leik. Það virtist sem íslenska liðið kæmist aldrei aftur af stað eftir þetta og þær spænsku héldu þungri pressu á íslenska liðinu og bættu við öðru marki um miðja lotuna og leiddu 2-0 eftir fyrstu lotu. Spánverjar bættu svo við þriðja markinu í byrjun annarar lotu og staðan orðin nokkuð dökk fyrir Ísland. Spænska liðið var mun sterkara í lotunni og staðan 3-0 eftir tvær lotur. Það var ekki fyrr en í þriðju lotunni sem íslenska liðið fór loksins í gang of fór að fá færi og um miðja lotuna minnkaði Eva Karvelsdóttir muninn í tvö mörk í yfirölu. Ísland fékk frábært færi til þess að minnka muninn í eitt mark skömmu síðar en markvörðu Spánverja bjargaði þeim á ótrúlegan hátt og Ísland komst ekki nær og Spánverjar tryggðu sér silfurverðlaun í mótinu.
Eftir leikinn var verðlaunaafending í svellinu þar sem Mexíkó tók við gullverðlaunum, Spánn við silfri og Nýja-Sjáland fékk brons. Sunna Björgvinsdóttir var valinn besti leikmaður Íslands á mótinu og Evu Karvelsdóttur hlotnaðist sá heiður að vera valinn besti varnarmaður mótsins.
Fjórða sætið í mótinu er vissulega vonbrigði fyrir Íslenska liðið sem setti markið hátt og ætlaði sér gullverðlaun í mótinu. Á móti má segja að mjög litlu hafi munnað að liðið hefi endað ofar enda töpuðust leikirnir gegn gull og bronsliðinu með ótrúlega litlum mun og hefðu allt eins getað unnist. Þrátt fyrir vonbrigðin með niðurstöðuna þá var mótið frábær skemmtun fyrir alla þá sem tóku þátt og á horfðu og verður vonandi lyftistöng fyrir íslenskt kvennaíshokkí. Framtíðin er einnig björt hjá kvennalandsliðinu þar sem yngstu leikmenn íslenska liðsins sköruðu framúr á mótinu og eru greinilega tæknilega betri og sterkari leikmenn en yngri leikmenn hinna liðanna. Það er því ljóst að sú kynslóð sem nú er að koma inn í landsliðið á eftir að styrkja liðið með hverju árinu sem frá líður og hugsanlega þarf ekki lengi að bíða þangað til liðið fari upp um deild. Áfram Ísland!
Sunna Björgvinsdóttir og bestu leikmenn liðanna. (mynd: Elvar Freyr Pálsson)
Eva Karvelsdóttir besti varnarmaður mótsins ásamt besta markmanni og sóknarmanni. (mynd: Elvar Freyr Pálsson)