HM kvenna: Sarah maður leiksins

Sarah Smiley skoraði tvö. Mynd: EFP
Sarah Smiley skoraði tvö. Mynd: EFP


Fimm marka tap hjá stelpunum okkar gegn Pólverjum.

Sarah Smiley skoraði bæði mörk Íslands og var valin maður leiksins. Þrátt fyrir fimm marka tap var leikurinn lengst af mjög jafn, en í þriðja leikhluta dró í sundur með liðunum og hafði þá breidd pólska liðsins sitt að segja.

Þær pólsku komust yfir í byrjun leiks, en Sarah Smiley jafnaði fyrir Ísland í upphafi annars leikhluta eftir stoðsendingu frá Steinunni Sigurgeirsdóttur. Ekki leið nema hálf mínúta þar til þær pólsku komust yfir aftur. Undir miðjan annan leikhluta jafnaði svo Sarah leikin að nýju, 2-2, að þessu sinni eftir stoðsendingu frá Steinunni og Guðrúnu Blöndal. Þær pólsku sigu svo fram úr í þriðja leikhlutanum, skoruðu þá fimm mörk án þess að stelpurnar okkar næðu að svara fyrir sig.

Tölfræðina um leikinn má sjá hér. Upplýsingar um mótið í heild má finna hér. Íslenska liðið er nú í fjórða sæti með fjögur stig að loknum þremur leikjum.

Næsti leikur Íslands verður gegn Suður-Afríku á fimmtudag og síðan leika þær gegn Spáni á föstudag. Ef horft er á úrslit leikja hingað til má gera ráð fyrir íslenskum sigri á fimmtudag, en leikurinn gegn þeim spænsku gæti orðið erfiðari. Að sjálfsögðu er þó alltaf möguleiki á að gera góða hluti þótt andstæðingurinn sé sterkari.