Hokkíveisla í höfuðborginni

Valkyrjur og mótherjar á mótinu í fyrra.
Valkyrjur og mótherjar á mótinu í fyrra.


Framundan er hokkíveisla í höfuðborginni og þar eigum við Akureyringar marga tugi keppenda. Iceland Ice Hockey Cup hefst í Egilshöllinni í dag (fimmtudag). Landsliðsæfing og æfingarleikur kvenna. Stelpuhokkídagur á sunnudag. Víkingar mæta SR í Laugardalnum á föstudagskvöld. 

Mótið í Egilshöllinni hefst síðdegis í dag, en keppt er í þremur styrkleikaflokkum karla og kvenna. Á vef Bjarnarins (bjorninn.com) má finna ýmsar upplýsingar um mótið (valmynd vinstra megin, Icelandair Cup), meðal annars leikjadagskrána

Úrslitakeppni karla fer fram á laugardag og úrslitakeppni kvenna á sunnudag. Alls koma fjórtán erlend lið; átta karlalið og sex kvennalið frá Kanada, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Fjörgur innlend kvennalið taka þátt og fjögur karlalið.

Landsliðsæfing og æfignarleikur kvenna
Íslenska kvennalandsliðið undirbýr sig nú fyrir HM sem fram fer á Spáni í apríl 2013. Liðið tekur daginn snemma á föstudag, en mæting er á landsliðsæfingu kl. 6.45 og æfingin sjálf verður kl. 7.30-8.30. Eftir það er markmannsæfing kl. 8.30-9.15 með Sami Jo Small, margföldum Ólympíu- og heimsmeistara. Landsliðsmorgninum lýkur svo með leik íslenska landsliðsins gegn All star Canadians kl. 9.30-10.30.

Hátt í 60 í SA-hernum
SA-herinn syðra samanstendur af fjölmörgum leikmönnum úr meistaraflokki kvenna og Valkyrjum, ásamt „strákunum“ í „Old boys“, alls 40 konur og eitthvað á annan tug karla.

„Old boys“ liðið frá SA keppir í C-riðli mótsins, en mótherjar þeirra þar eru Mississauga Hawks frá Ontario, Bucs frá New York og Björninn úr Reykjavík. Strákarnir hefja keppni á föstudagskvöld kl. 20.30 þegar þeir mæta Haukunum kanadísku. Annar leikur þeirra er síðan kl. 22.20 á föstudagskvöld gegn Birninum og síðasti leikurinn í riðlinum kl. 16.45 á laugardag gegn Bucs. Eftir það er svo leikið um sæti, sigurvegarar B- og C-riðils leika um efsta sætið og svo koll af kolli. Fyrsti leikurinn í þeirri úrslitakeppni hefst kl. 18.35 á laugardag og sá síðasti kl. 21.25.

Stelpurnar frá SA spila með þremur liðum. Valkyrjurnar – sem fréttaritari ætlar ekki að kalla „Old girls“ þrátt fyrir að strákarnir séu kallaðir „Old boys“ – keppa í B-deild mótsins. Leikmenn úr meistaraflokksliðum SA dreifast á tvö lið ásamt leikmönnum úr Reykjavík og spila í A-elítudeildinni. Annars vegar er „Svarta liðið“, skipað leikmönnum landsliðsins 2011-2012, og hins vegar er „Rauða liðið“, skipað leikmönnum sem hafa verið að banka á dyr landsliðsins, eins konar pressulið. Aukaæfing verður fyrir landsliðskonurnar og „hinar vongóðu“ áður en mótið hefst.

Innlendu liðin í A-elítudeild kvenna byrja á því að mæta hvort örðu kl. 15.50 á föstudag. Eldsnemma á laugardagsmorguninn (8.15 og 9.05) mæta bæði liðin kanadískum liðum og svo aftur á sunnudagsmorguninn (10.05 og 11.05). Síðan verður leikið um 3. sætið kl. 18.40 á sunnudag og úrslitaleikurinn fer fram kl. 19.30 á sunnudag.

Valkyrjurnar mæta með vaska sveit í höfuðborgina. Þær fá að kljást við tvö kanadísk lið í B-riðlinum, FUNgals og Lightweights. Fyrri leikur Valkyrjanna verður kl. 11.05 á laugardag og sá síðari kl. 9.05 á sunnudag. Eftir það fer síðan fram sérstök úrslitakeppni þar sem leikið á milli B- og C-riðlanna. Fyrsti leikurinn í þeirri úrslitakeppni hefst kl. 13.00 á sunnudag og sá síðasti kl. 18.40.

Heiminum breytt í einni skautahöll í einu
Sami Jo Small, fyrrverandi markvörður kanadíska landsliðsins, sem þrisvar hefur tekið þátt í Ólympíuleikum (tvisvar Ólympíumeistari) og fimm sinnum heimsmeistari, verður á mótinu og kynnir kvennahokkí. Hún fer víða og heldur fyrirlestra þar sem hún fjallar um hokkí frá öllum hliðum og hefur unnið mikið starf til að efla íþróttina á meðal kvenna. Hún aðstoðar við markmannsæfingar og landsliðsæfinguna, auk þess sem hún verður með sérstakan „stelpuhokkídag“ í Egilshöllinni á sunnudagsmorguninn. Hún hefur unnið mikið starf við að kynna og efla kvennahokkí víða um heim. Þá verða fulltrúar frá „The Women Of Winter“ á staðnum, en eitt af þeirra verkefnum er að selja vörur og safna fé til að styrkja starf Sami Jo Small. Slagorð The Women Of Winter er „breytum heiminum í einni skautahöll í einu“ í lauslegri þýðingu.

Víkingar fara í Laugardalinn
Hafi einhver haldið að aðeins yrði spilað hokkí í Egilshöllinni syðra er það misskilningur. Víkingar halda suður á morgun, föstudag, og mæta SR í Laugardalnum annað kvöld. Leikur liðanna hefst kl. 20.15.


Efsta myndin er frá Iceland Ice hockey Cup 2011 (Elvar Freyr Pálsson), sú næsta úr leik Ynja og Ásynja á Akureyri núna í september (Elvar Freyr Pálsson, 24.01.12) og sú neðsta úr leik Víkinga og SR (Elvar Freyr Pálsson, 15.09.12). Ef smellt er á myndirnar er hægt að skoða viðkomandi myndasöfn.