Karfan er tóm.
Opnunarhófið hefst kl. 21.00 miðvikudagskvöldið 29. apríl, vonandi nógu seint til að knattspyrnuáhugafólk sem einnig stundar krullu geti sinnt báðum áhugamálunum. Staðsetningin er heldur óvenjuleg því við ætlum að koma saman í verbúðinni hans Kidda (Kristjáns Þorkelssonar) og njóta þess að smakka á hefðbundnum, alíslenskum matvælum og vonandi í leiðinni að kynna eyfirskt hnossgæti fyrir erlendu keppendunum tveimur.
Á opnunarhófinu verður dregið saman hvaða lið mætast í fyrstu umferðinni. Ef einhver lið geta alls ekki hafið leik kl. 11 á fimmtudag verður að sjálfsögðu komið til móts við þær þarfir og leikur viðkomandi liðs (eða liða) settur á kl. 13.30 í staðinn. Þau lið sem eiga í slíkum vandræðum eru beðin um að láta vita við upphaf dráttar. Jafnframt drætti til fyrstu umferðar verður keppnisfyrirkomulagið útskýrt eftir því sem þörf er á og er fólk hvatt til að skoða keppnisreglurnar og koma með spurningar ef eitthvað er óljóst.
Fyrir það krullufólk sem ekki hefur komið í verbúðina til Kidda og/eða veit ekki hvar hún er skal það upplýst hér að hún er í Sandgerðisbót og höfum við merkt inn á kort og birtum hér mynd með leiðinni frá hringtorginu á Hörgárbrautinni niður í verbúðina. Ekki verður boðið upp á akstur á kjörstað...
Krullufólk er hvatt til að koma í góðu skapi, jafnvel með söngröddina með í farteskinu og vonandi eigum við skemmtilega kvöldstund hjá Kidda í upphafi móts.
Gjaldkeri krulludeildar verður með posann og veskið með sér og tekur við þátttökugjöldum ef einhver vill greiða þau þar. Að sjálfsögðu geta lið einnig lagt þátttökugjaldið beint inn á reikning deildarinnar (sjá reikningsnúmer í valmyndinni hér til hliðar) en síðustu forvöð til að greiða eru fyrir fyrsta leik að morgni fimmtudagsins inni í Skautahöll.