Karfan er tóm.
Nú er að komast mynd á keppnisfyrirkomulag, reglur og dagskrá Ice Cup, enda ekki seinna vænna því mótið hefst með hefðbundnu opnunarhófi miðvikudagskvöldið 30. apríl kl. 21. Á aðalfundi Krulludeildar, sem haldinn verður þriðjudagskvöldið 22. apríl verður farið yfir ýmis mál er varða undirbúning og skipulag mótsins og spurningum svarað ef eitthvað þarfnast útskýringar.
Hér eru helstu atriði:
Kaldbaksferð á föstudagsmorgni - áríðandi að skrá sig
Föstudagsmorguninn 2. maí er ætlunin að fara með Kaldbaksferðum á snjóbíl upp á Kaldbak. Ef krullufólk á kuldagalla aukalega þá vantar okkur svoleiðis nokkuð fyrir erlenda gesti okkar. Vinsamlega kíkið í geymslurnar og takið gallana með (merkta) inn í Skautahöll, eða hafið samband við fyrirtæki sem þið teljið að myndu vilja lána okkur galla.
Reiknað er með að fara á einkabílum, hittumst kl. 8.30 við Skautahöllina. Lagt á fjallið kl. 10. Ferðin upp tekur 45 mínútur, stoppað uppi í 15 mínútur og farið aftur niður, annað hvort á snjóþotu eða með snjóbílunum. Verð: 6.500 krónur á mann, ekki innifalið í þátttökugjaldinu, en ef við náum fleiri en 30 manns fáum við 10% afslátt.
Skráning í ferðina (lokafrestur er að kvöldi sumardagsins fyrsta):
Undirbúningur fyrir mótið
Það verða næg verkefni í boði við undirbúning mótsins. Við byrjum sunnudagskvöldið 27. apríl kl. 22.30 með flæðingu. Vinna við plastskýlið verður mánudagskvöldið 28. apríl og á mánudag, þriðjudag og miðvikudag verða næg verkefni á tilteknum tímum við flæðingu og vinnslu á svellinu.
Á meðan á mótinu stendur þurfum við á vinnufúsum höndum að halda, aðallega við vinnu á svellinu á milli leikja og svo í sjoppunni. Bræðurnir Hallgrímur og Davíð Valssynir verða verkstjórar á þessum sviðum, Hallgrímur á svellinu og Davíð í sjoppunni.
Hér eru þrjú pdf-skjöl með upplýsingum um keppnisfyrirkomulag, reglur og svo
þau lið og leikmenn sem skráð eru til leiks að þessu sinni:
Keppnisfyrirkomulag
Reglur
Lið og leikmenn (vinsamlega hafið samband við mótsstjóra ef hér leynast villur)