Ice Cup: Vinna í dag - námskeið í kvöld kl. 20


Krullufólk er velkomið til vinnu við svellið og búnað í allan dag. Verkleg kennsla við ísgerð, umhirðu steina og fleira. Stutt námskeið eða spjall um kl. 20 (breyttur tími).

Vinna við flæðingu hófst strax á sunnudagskvöld og haldið var áfram í gær. Farið verður í merkingar á svellinu um klukkan níu í dag og fram eftir morgni, auk þess sem steinarnir verða slípaðir með sérstökum þýskum sandpappír með demantaögnum. Mark Callan mætti til landsins í gær og hófst strax handa við vinnu á svellinu og að uppfræða viðstadda um þá tækni og vísindi sem liggja að baki góðu krullusvelli. Hann kom klyfjaður af búnaði sem mun nýtast við vinnuna framundan. 

Reiknað er með að vinna við "skýlið" hefjist um klukkan tíu, en einnig er ýmislegt á döfinni við lagfæringu á búnaði og fleira í þeim dúr. Að loknum merkingum á svellinu verður það flætt.

Það verður því nóg að gera fyrir áhugasama krullara í næstum allan dag. En fyrir utan verkefnin sjálf er krullufólk hvatt til að koma og fylgjast með, fá upplýsingar og leiðbeiningar frá Mark jafnóðum og við vinnum þessi verkefni. 

Um kl. 20 í kvöld reiknum við síðan með því að setjast niður með Mark í fundarsalnum í Skautahöllinni þar sem hann heldur stutt námskeið eða spjall um það helsta sem fólk þarf að kunna og vita til að geta gert gott krullusvell. Allir velkomnir.