Steinunn og Egill
Íshokkísamband Íslands hefur nú staðið fyrir hinu árlega vali á íshokkímanni og konu ársins. Að þessu sinni urðu fyrir valinu Egill Þormóðsson og Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir. Bæði eru þau mjög vel að þessari viðurkenningu komin, góðir íþróttamenn og burðarásar í sínum liðum. Agli og Steinunni og ferli þeirra eru gerð góð skil á heimasíðu ÍHÍ og hér á eftir fylgir sú umfjöllun (með góðfúslegu bessaleyfi)
Egill Þormóðsson er íshokkímaður ársins 2009. Egill hóf sex ára að æfa íshokkí og hefur lengst af spilað með Skautafélagi Reykjavíkur. Egill var einn af máttarstólpum í liði Skautafélags Reykjavíkur sem vann íslandsmeistaratitilinn á síðasta keppnistímabili og endaði sem stigahæsti maður liðsins. Einnig varð Egill lang stigahæðsti leikmaður í 2. flokki Skautafélags Reykjavíkur sem einnig varð íslandsmeistari. Egill hefur spilað með öllum landsliðum Íslands í íshokkí. M.a. var Egill fyrirliði U18 ára liðs Íslands sem vann sig upp um deild á síðasta heimsmeistaramóti Alþjóða Íshokkísambandsins. Á mótinu var Egill valinn besti leikmaður Íslenska liðsins ásamt því að vera stigahæsti maður mótsins. Egill lék einnig á árinu í fyrsta sinn með Íslenska karlalandsliðinu á heimsmeistaramóti en liðið náði sínum besta árangri til þessa á því móti. Síðari part ársins hefur Egill leikið með liði Mörrum í Svíþjóð.
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir er íshokkíkona ársins 2009. Hún lærði að skauta 10 ára sér til skemmtunar og yndisauka en byrjaði að spila íshokkí 19 ára og lagði metnað sinn allan í leikinn. Steinunn hóf feril sinn hjá Skautafélagi Akureyrar og hefur fimm sinnum hreppt Íslandsmeistaratitil með því liði og í nokkur þau skipti var hún aðstoðarfyrirliði. Steinunn hefur spilað með Íslenska landsliðinu frá upphafi þess og hefur skipað veigamikinn sess í því liði. Hún hlaut gullverðlaun á heimsmeistaramótinu 2008 í Rúmeníu og stóð sig mjög vel á því móti. Steinunn hefur auk þess spilað á erlendri grundu fyrir erlend félagslið s.s. Amager Jets í Svíþjóð og Sidney Bears í Ástralíu. Nú spilar hún með Birninum og sinnir þar aðstoðarfyrirliðastöðu.Auk þess að spila íshokkí hefur hún starfað sem aðstoðarþjálfari bæði hjá Birninum og Skautafélagi Akureyrar og hlotnaðist sá heiður að fá að vera aðstoðarþjálfari hjá New South Wales í Ástralíu en þær urðu einmitt Ástralíumeistarar.Ásamt öðrum skipulagði Steinunn heimsókn lið Fálkanna sem spiluðu og ferðuðust hér á landi árið 2006 og nú starfar hún í stjórn Bjarnarins ásamt því að sitja í mótanefnd ÍHÍ. Steinunn hefur verið ein af mikilvægustu leikmönnum landsliðsins sem og félagsliðanna og var markahæst í deildinni í fyrra þegar hún spilaði fyrir Björninn.