Karfan er tóm.
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann stórsigur á Rúmeníu í gærkvöld á heimsmeistaramótinu í íshokkí sem fram fer á Akureyri. Íslenska liðið skoraði 7 mörk gegn tveimur frá Rúmeníu. Ísland mætir Mexíkó í kvöld kl 20.00 í Skautahöllinni á Akureyri.
Fyrir leik Íslands var setningarathöfn mótsins þar sem Viðar Garðarsson formaður Íshokkísambands Íslands, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar og Monique Scheier frá Alþjóða Íshokkísambandinu héldu stuttar tölur. Um 400 manns voru mættir í stúkuna til þess að styðja stúlkurnar sem byrjuðu leikinn af krafti og setti strax pressu á lið Rúmeníu. Það vantaði ekkert uppá einbeitinguna og kraftinn sem skilaði fyrsta markinu eftir 5 mínútna leik þegar Flosrún Jóhannesdóttir skoraði eftir undirbúning Birnu Baldursdóttur. Silvía Björgvinsdóttir skoraði svo annað mark Ísland strax í kjölfarið og full stúkan í Skautahöllinni fagnaði af krafti. Íslenska liðið var greinilega mun sterkari aðilinn á svellinu og þær skoruðu svo þriðja markið eftir um 15 mínútna leik þega Silvía Björgvinsdóttir skoraði fallegt mark.
Íslenska liðið kom mun afslappaðra til leiks í annarri lotunni og pökkurinn gekk betur á milli leikmanna. Silvía Björgvinsdóttir skoraði fjórða mark liðsins og staðan 4-0 eftir tvær lotur. Rúmenía náði aðeins að laga stöðuna í þriðju lotu þar sem þær skoruðu 2 mörk en Íslenska liðið svaraði með þremur mörkum og unnu leikinn 7-2.
Nokkuð óvænt úrslit urðu öðrum leik mótsins í gær þegar Mexíkó vann Spán sem var efsta liðið í styrkleikaröðun fyrir mótið. Ísland mætir Mexíkó í kvöld og það má búast við svakalegum leik og við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til þess að mæta í stúkuna og styðja stelpurnar okkar.
Spánn mætir Nýja Sjálandi núna kl 13.00 í dag og það er einnig áhugaverður leikur en Rúmenía og Tyrkland mætast svo kl 16.30 en þar ræðst væntanlega hvort liðið fellur niður um deild.