Íslandsmeistarar !

Myndir: Sigurgeir Haraldsson (27.09.2013)
Myndir: Sigurgeir Haraldsson (27.09.2013)


SA Víkingar enduðu tímabilið með tilþrifum þegar þeir lönduðu Íslandsmeistaratitlinum með 4-0 sigri á Birninum í oddaleik sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Lars Foder skoraði þrennu, Ómar Smári Skúlason varði eins og berserkur þegar sókn Bjarnarins þyngdist.


I. Vel stemmdir til leiks
SA Víkingar virtust koma vel stemmdir til leiks og spiluðu af krafti, bæði sókn og vörn. Leikirnir hingað til hafa verið nokkuð kaflaskiptir, liðin hafa bæði skorað nokkur mörk í röð í leikjunum og hitt liðið þá stundum virst heillum horfið á meðan. Til að mynda mættu Víkingar seint til leiks í fjórða leiknum á mánudagskvöldið og lentu 3-0 og 4-1 undir. Þjálfarar og leikmenn beggja liða vissu því fyrir þennan leik hve mikilvægt það væri að byrja af krafti og freista þess að ná tökum á leiknum. Vel studdir af fjölmörgum áhorfendum sem fylltu pallana og rúmlega það voru Víkingar sprækari en gestirnir í upphafi.

Það var kannski góðs viti að fyrsta brottvísunin í leiknum var á leikmann Bjarnarins um miðbik fyrsta leikhluta, en þeir hafa einmitt verið mjög hættulegir og fljótir að skora þegar þeir hafa verið einum fleiri. Okkar mönnum hefur reyndar stundum ekki gengið nógu vel að nýta sér liðsmuninn, en til að auðvelda þeim það fór annar Bjarnarmaður í boxið, Róbert Pálsson varð fyrir því óláni að senda pökkinn út af úr eigin varnarsvæði.

Tveimur færri náðu Bjarnarmenn þó að stela pökknum, en Víkingar náðu honum strax aftur, héldu ró sinni og spiluðu sín á milli þar til færi gafst að sækja að markinu. Lars Foder fékk pökkinn fyrir utan, hótaði skoti, en sendi pökkinn þess í stað til Stefáns Hrafnssonar hægra megin, hann sendi hann áfram inn að markinu þar sem Ingvar Þór Jónsson tók á móti honum og laumaði honum í markið. Vel útfært og vel afgreitt. Mikilvægt að skora fyrsta markið í leiknum.

Þetta reyndist reyndar eina markið í fyrsta leikhlutanum, en bæði lið fengu þó færi, Víkingar heldur fleiri og hættulegri en gestirnir. Við lokaflautið fékk síðan Úlfar Jón Andrésson refsingu og Víkingar hófu því annan leikhlutann einum fleiri. Þrjár fyrstu refsingarnar voru á Bjarnarmenn, enda hafa Víkingar væntanlega gert sér grein fyrir mikilvægi þess að halda refsimínútunum í lágmarki. Ekki aðeins til að losna við að spila einum færri, heldur einnig til að vinna sálfræðistríðið því með refsingum eykst pirringur sem að sjálfsögðu hefur áhrif á leik liðsins.

Birkir Árnason, fyrirliði Bjarnarins, sem í fyrra lyfti Íslandsbikarnum í fyrsta skipti í sögu karlaliðs félagsins, lék ekki með Birninum í fjórða leiknum á mánudagskvöld vegna meiðsla. Hann reyndi að spila í kvöld, var með í fyrsta leikhluta, en meiðslin voru honum greinilega fjötur um fót og hann skellti sér bara í sturtu og kom ekki meira við sögu í leiknum. Þar var auðvitað skarð fyrir skildi hjá liði Bjarnarins.

II. Vonin staðfest
Þegar leið á annan leikhluta þyngdist sókn Bjarnarins nokkuð. Eftir refsingalausan fyrsta leikhluta fengu Víkingar þrjá tveggja mínútna dóma í öðrum leikhlutanum, eins og Bjarnarmenn. Öfugt við það sem gerðist í þriðja leiknum hér á Akureyri tókst Bjarnarmönnum ekki að nýta sér það að spila einum fleiri í þetta skiptið. Víkingar voru áfram grimmir í vörninni, alltaf tilbúnir á réttum stað og þau skot sem rötuðu framhjá varnarmönnum og á markið varði frábær markvörður liðsins, Ómar Smári Skúlason. Eftir á að hyggja má jafnvel orða það sem svo að Ómar Smári hafi unnið leikinn í öðrum leikhluta. Með frábærri frammistöðu lagði hann grunn að lokaþætti leikritsins og sló á titilvonir gestanna.

Þegar leikskýrslan er skoðuð sést að skot á mark voru álíka mörg frá báðum liðum fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta varði Ómar Smári 16 skot á móti 6 vörðum skotum Styrmis í marki Bjarnarins.

Hvorugu liðinu tókst að skora í öðrum leikhluta og þrátt fyrir aðeins eins marks forystu hafði sá sem þetta ritar á tilfinningunni alveg frá byrjun að Víkingar myndu sigra og sú trú styrktist í öðrum leikhluta með öflugum varnarleik og frábærri markvörslu.

III. Frábær liðsheild, frábærir einstaklingar
SA Víkingar skoruðu síðan annað markið eftir nokkurra mínútna leik í þriðja leikhluta og þá má segja að Björninn hafi verið unninn. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Víkingar gáfu ekkert eftir, héldu áfram sömu baráttu, skautuðu á fullu, tækluðu og létu Bjarnarmenn finna vel fyrir sér. Titilvon Bjarnarmanna fjaraði smátt og smátt út og á lokamínútunum var eins og aukakraftur kæmi úr stúkunni og með vitneskjunni um að bikar færi á loft SA-megin tóku Víkingarnir endanlega öll völd á svellinu og bættu við tveimur glæsilegum mörkum á sama tíma og Bjarnarmenn sáu tækifærið renna sér úr greipum og gáfu eftir.

Lars Foder átti frábæran leik, skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendigu. Ómar Smári Skúlason var frábær í markinu. En þegar upp er staðið var það liðsheildin sem skilaði SA Víkingum þessum titli. Ingvar Þór Jónsson þjálfari verður að teljast sigurvegari vetrarins því hann hefur ekki aðeins staðið sem klettur í vörninni heldur tók hann við þjálfun liðsins fyrir þetta tímabil, nánast sem greiða við félagið þar sem ekki hafði tekist að finna annan þjálfara, og skilaði frábærum árangri.

Mörk/stoðsendingar
SA Víkingar
Lars Foder 3/1
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/3
Hermann Knútur Sigtryggsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1Sigurður Sveinn Sigurðsson 0/1
Refsingar: 12 mínútur
Varin skot: 33 (10+16+7)

Björninn
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 39 (14+6+19)

Tenglar á viðtöl
Sá sem þetta ritar ákvað að sleppa viðtölum við leikmenn og láta þess í stað fagmennina um það verk - vísa bara í umjföllun og viðtöl á hinum ýmsu fjölmiðlum. Hér að neðan eru tenglar á umfjöllun fjölmiðla um leikinn, textalýsingar og viðtöl við leikmenn. Nú þegar er komið inn myndaalbúm frá Elvari Frey Pálssyni á sasport.is, auk þess sem Sigurgeir Haraldsson á myndirnar í þessari frétt. Búast má við mun fleiri myndum inn á sasport.is innan tíðar því okkar frábæri ljósmyndaraher var með linsurnar á lofti.

Mbl.is
Viðtal við Birki Árnason, fyrirliða Bjarnarins:
Bein textalýsing mbl.is
Viðtal við Sigga Sig – þið losnið ekkert við mig

visir.is
Bein textalýsing og viðtöl við Orra Blöndal, Ómar Smára Skúlason og Lars Foder

ruv.is
Mörk, viðtöl og bikarafhending

Sasport.is


Sport.is

Myndasafn Elvars Freys Pálssonar