Karfan er tóm.
Þrjú lið eiga möguleika á að hampa deildarmeistaratitli Íslandsmótsins í krullu, en lokaumferð keppninnar fer fram í kvöld.
Fjögur efstu liðin í deildarkeppninni tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins þetta árið og eiga öll liðin enn möguleika á sæti í úrslitum. Þrjú eru örugg, Garpar, Mammútar og Ice Hunt, Freyjur eru núna í fjórða sætinu, en Víkingar geta náð þeim og þá þyrfti aukaleik þessara liða um sæti í úrslitum (sjá reglur hér).
Möguleikarnir varðandi þrjú efstu sætin eru þrír:
A) Ef Garpar vinna Ice Hunt hafa þeir þar með tryggt sér efsta sætið með fullu húsi. Þá yrðu Mammútar í öðru sæti og Ice Hunt í þriðja, alveg sama hvort Mammútar ynnu eða töpuðu.
B) Ef Ice Hunt vinnur Garpa og Mammútar tapa sínum leik verður Ice Hunt deildarmeistari, Garpar í öðru sæti og Mammútar í þriðja.
C) Ef Ice Hunt vinnur Garpa og Mammútar vinna Víkinga verða þrjú lið efst og jöfn með þrjá vinninga; Garpar, Ice Hunt og Mammútar. Liðin eru þá einnig jöfn með einn vinning úr innbyrðis viðureignum. Þá verður það árangur úr skotum að miðju sem ræður röðinni. Þar standa Garpar best að vígi fyrir lokaumferðina, Ice Hunt er með næstbesta árangurinn og Mammútar lakastan af þessum þremur. Rétt er að hafa í huga að þegar meðaltal af skotum að miðju er reiknað gilda aðeins þrjú bestu skotin af fjórum hjá hverju liði. Áhugasamt krullufólk getur prófað og skoðað möguleikana með því að setja inn tölur í dálkinn fyrir skot að miðju í síðustu umferðinni og þá kemur rétt niðurstaða í heildardálkinn (í excel-skjalinu).
Freyjur eða Víkingar
Keppnin um fjórða sætið er einföld. Freyjur hafa lokið keppni og eru með einn vinning. Víkingar eru án sigurs, þannig að ef þeir tapa verða Freyjur í fjórða sætinu, en ef Víkingar vinna verða liðin jöfn. Samkvæmt reglunum missir lið ekki af sæti í úrslitum nema með því að tapa aukaleik (tie breaker), en ekki vegna lakari árangurs í innbyrðis viðureign eða skotum að miðju. Við upphaf mótsins láðist að setja inn sérstakan tengil á reglur Íslandsmótsins, en í frétt við upphaf mótsins mánudaginn 27. janúar var upplýst um þessa reglu, sem gilt hefur á Íslandsmótum frá 2012.
Komi til aukaleiks er það hins vegar efra liðið (Freyjur) sem myndi hafa val um síðasta stein í þeim leik því liðunum er raðað út frá vinningum/innbyrðis viðureignum/skotum að miðju til að ákveða annars vegar val um síðasta stein og hins vegar hver mætir hverjum í úrslitakeppninni.
Úrslitakeppnin
Og í leiðinni er rétt að rifja einu sinni enn upp sjálfa úrslitakeppnina. Þar munu tvö efstu liðin mætast (1v2) og liðin í þriðja og fjórða sæti hins vegar (3v4). Sigurliðið úr 1v2 fer beint í úrslitaleikinn og á frí í undanúrslitunum. Tapliðið úr 3v4 fer í bronsleikinn og situr einnig hjá í undanúrslitunum.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um leikdaga í úrslitakeppninni. Úrslitakeppnin á myndrænan hátt:
Leikir lokaumferðarinnar:
Braut 1: Víkingar - Mammútar
Braut 2: Ice Hunt - Garpar
Ísumsjón: Mammútar og Garpar