Íslandsmótið í krullu: Mammútar deildarmeistarar

Deildarmeistarar 2013: Mammútar. Mynd: Ási
Deildarmeistarar 2013: Mammútar. Mynd: Ási


Mammútar tryggðu sér deildarmeistaratitil Íslandsmótsins í krullu með sigri á Görpum í framlengdum leik toppliðanna í gærkvöldi. Tvö lið örugg í úrslit, öll hin eiga enn möguleika.

Toppliðin tvö, Mammútar og Garpar, áttust við í sjöttu umferðinni í gærkvöldi. Garpar náðu að jafna leikinn í lokaumferðinni og því þurfti að spila aukaumferð til að fá sigurvegara. Þar leit út fyrir að Garpar ætluðu að stela stiginu, en Mammútar náðu að bjarga sér og vinna leikinn með síðasta steini umferðarinnar. Þá unnu Skytturnar Víkinga og Ís-lendingar unnu Fífurnar.

Úrslit leikja:
Skytturnar - Víkingar  9-5
Ís-lendingar - Fífurnar  5-3
Mammútar - Garpar  7-6

Eftir úrslit leikja í gærkvöldi er ljóst að Mammútar eru deildarmeistarar 2013. Lið Mammúta skipa eftirtaldir: Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason, Ragnar Jón Ragnarsson og Sveinn H. Steingrímsson.

Mammútar hafa unnið alla fimm leiki sína til þessa, en Garpar hafa fjóra vinninga og sitja yfir í lokaumferðinni. Garpar eru reyndar öruggir í öðru sætinu. Ís-lendingar eru í þriðja sæti og jafnvel þótt liðið myndi ná Görpum að stigum myndu Garpar raðast ofar vegna sigurs í innbyrðis viðureign þessara liða. Þetta þýðir að leikur 1v2 í úrslitakeppninni er klár: Mammútar - Garpar.

Ís-lendingar hafa að minnsta kosti tryggt sér aukaleik um sæti í úrslitum, en margs konar niðurstaða úr leikjum lokaumferðinnar og úrslit frestaðs leik Fífanna gegn Ice Hunt gera það að verkum að hugsanlega gætu fjögur lið endað jöfn í 4.-7. sæti og þyrftu því aukaleiki um sæti í úrslitum, tvö lið gætu tryggt sér beint sæti í úrslitum og hin setið eftir - og allt þar á milli. Það eiga því enn öll liðin möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Hugsanlegt er að frestaður leikur Fífanna og Ice Hunt úr þriðju umferðinni fari fram miðvikudagskvöldið 13. mars, en það er óstaðfest. Síðan verður lokaumferð mótsins spiluð mánudagskvöldið 18. mars. Ítrekað skal að þegar ljóst er hvaða lið komast í úrslit (eða aukaleiki) verður fundað með fyrirliðum þeirra liða til að ákveða endanlega leikdaga fyrir úrslitakeppnina.

Leikir 7. umferðar:
1. Fífurnar - Mammútar
2. Ice Hunt - Skytturnar
3. Víkingar - Ís-lendingar
Ísumsjón: Mammútar, Skytturnar, Ís-lendingar

Öll úrslit og staða (excel-skjal).