Íslandsmótið í krullu: Níu lið skráð til leiks


Þetta er í ellefta sinn sem leikið er um Íslandsmeistaratitil í krullu. Búið er að draga um töfluröð í mótinu og fer fyrsta umferð fram mánudagskvöldið 23. janúar. Eingöngu verður leikið á mánudögum, nema að hugsanlegt er að í neyð þurfi að spila á miðvikudagskvöldi ef fresta þarf leik.

Athygli keppenda er vakin á nokkrum mikilvægum breytingum sem gerðar hafa verið frá fyrri mótum.

  • Æfing hvors liðs fyrir leik er fjórar mínútur (í stað fimm áður). Að lokinni æfingu er tekið skot að miðju í samræmi við krullureglur WCF, eins og verið hefur.
  • Allir leikir eru átta umferðir (í stað sex áður). Athygli er vakin á því að lið eru ekki skyldug til að spila fullar átta umferðir; lið í vonlausri stöðu má hætta leik, en samkvæmt krullureglum WCF skal spila að lágmarki sex umferðir áður en leik er hætt.
  • Röðun liða fer eftir krullureglum WCF, þ.e. vinningar, innbyrðis viðureignir, miðjuskotskeppni. Athygli er vakin á þeirri breytingu sem nú er gerð í okkar móti að lið getur ekki misst af sæti í úrslitakeppni út frá innbyrðis viðureignum eða miðjuskotskeppni, heldur munu fara fram aukaleikir eftir þörfum til að skera úr hver af þeim liðum sem enda jöfn að vinningum komast í úrslitakeppni.
  • Fram fer úrslitakeppni fjögurra liða skv. svokölluðu "page-playoff" kerfi, sbr. reglur WCF.

Reglur mótsins eru í pdf-skjali hér. Krullureglur Alþjóða krullusambandsins má finna á vef WCF hér. Tilbúin eru drög að íslenskri þýðingu reglnanna sem vonandi verða birtar hér innan tíðar. Krullufólk er hvatt til að kynna sér reglurnar.

Leikjadagskrána má sjá í excel-skjali hér, en þar eru þó ókláraðar upplýsingar um liðsskipan, auk þess sem fyrirvari er við dagsetningar á síðari umferðum mótsins þar sem hugsanlega verður skotið inn á milli aukamánudegi undir frestaða leiki ef þörf verður á. Tímasetning á úrslitakeppni hefur ekki verið ákveðin.

Miðað er við að fjögur lið sjái um undirbúning á ís hverju sinni, þ.e. þau lið sem talin eru upp á eftir í leikjadagskránni.

Fyrsta umferð, mánudaginn 23. janúar:
Braut 2: Fífurnar - Svartagengið
Braut 3: Ísherjar - Víkingar
Braut 4: Skytturnar - Ís-lendingar
Braut 5: Mammútar - Rennusteinarnir

Ísumsjón: Svartagengið, Víkingar, Ís-lendingar, Rennusteinarnir.