Karfan er tóm.
Um liðna helgi fór fram annað innanfélagsmótið í íshokkí hjá 4., 5., 6. og 7. flokki á þessum
vetri.
Skipt er í tvær deildir, 4. og 5. flokk annars vegar og 5., 6. og 7. flokk hins vegar. Krökkunum er skipt í þrjú lið í hvorri deild.
Hjá 4. og 5. flokki var það Græna liðið sem vann báða sína leiki, Appelsíniugulir unnu einn leik og töpuðu einum, en Svartir töpuðu tveimur leikjum. Appelsínugulir eru efstir með 6 stig eftir tvær keppnishelgar, Grænir eru með 4 stig og Svartir með 2 stig. Atkvæðamestur í markaskorun að þessu sinni var Egill Birgisson með þrjú mörk og eina stoðsendingu.
Hjá 5., 6. og 7. flokki var keppnin mjög jöfn og spennandi, tveir leikir unnust með eins marks mun og einn endaði með jafntefli. Appelsínugulir unnu einn og gerðu eitt jafntefli, Svartir sömuleiðis, en Grænir töpuðu tveimur leikjum naumlega. Appelsínugulir og Svartir eru efstir og jafnir með 5 stig, en Grænir hafa 2 stig. Berglind Rós Leifsdóttir skoraði mest að þessu sinni, en hún skoraði 2 mörk. Alexander Leví Hafþórsson, markvörður hjá Grænum, stóð sig einnig með stakri prýði á milli stanganna þrátt fyrir að lið hans hafi tapað báðum leikjunum. Hann varði oft meistaralega, en lið hans saknaði lykilleikmanna.
Tvö mót eru eftir í þessari mótaröð, en þau verða 3. og 4. nóvember og svo 15. og 16. desember. Að þeim mótum loknum verða krýndir deildameistarar, en síðan verða liðin stokkuð upp eftir áramótin.
Myndin sem fylgir fréttinni er reyndar ekki frá umræddum deildakeppnum, heldur frá stelpuhokkídeginum sem haldinn var á sunnudag.