Janúarmótið: Garpar og Mammútar leika til úrslita

Riðlakeppni Janúarmótsins lauk í kvöld. Garpar unnu A-riðil, Mammútar unnu B-riðil.

Í A-riðlinum sigruðu Garpar Víkinga í lokaumferðinni og Skytturnar unnu Svarta gengið. Garpar unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum, Skytturnar koma næstar með tvo sigra, þá Víkingar með einn sigur og Svarta genginu tókst ekki að vinna leik í riðlinum.

B-riðillinn fór á svipaðan veg, Mammútar unnu Büllevål í kvöld og Fífurnar unnu Riddara. Það þýðir að Mammútar unnu riðilinn með þremur sigrum, Fífurnar koma næstar með tvo sigra, þá Büllevål með einn sigur og Riddarar eru án sigurs.

Úrslitin urðu sem sagt hrein í báðum riðlum, engin lið jöfn og því reyndi ekki á annað en fjölda sigra - eða eins og haft var á orði í Skautahöllinni í kvöld: Því flóknari möguleikar sem útskýrðir eru hér á vefnum fyrir lokaumferð móts, því einfaldari verða úrslitin og röðin í mótinu. Það verða því Garpar og Mammútar sem leika til úrslita um gullið, en þessi sömu lið léku til úrslita í þessu sama móti í fyrra. Hins vegar leika Skytturnar og Fífurnar um bronsið. Víkingar og Büllevål leika um 5.-6. sætið og Svarta gengið og Riddarar um 7.-8. sætið. Leikirnir fara fram mánudagskvöldið 18. janúar.

Úrslit kvöldsins:

A-riðill
Víkingar - Garpar   3-6
Skytturnar - Svarta gengið   6-1

B-riðill
Mammútar - Büllevål   10-4
Riddarar - Fífurnar   3-8

Úrslit allra leikja er að finna í excel-skjali hér.

Úrslitaleikirnir verða sem fyrr segir mánudagskvöldið 18. janúar og er þeim leikjum raðað á brautir með það að leiðarljósi að ekkert lið leiki þrisvar á sömu brautinni í mótinu.

Braut 1 (3.-4. sæti): Skytturnar - Fífurnar
Braut 2 (1.-2. sæti): Garpar - Mammútar
Braut 3 (7.-8. sæti): Svarta gengið - Riddarar
Braut 4 (5.-6. sæti): Víkingar - Büllevål