Jötnar - Húnar 4-2

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (20.11.2012)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (20.11.2012)


Jötnar sigruðu Húna á Íslandsmótinu í íshokkí í gærkvöldi í leik sem skipti engu máli upp á röð liðanna í deildinni.

Sigmundur Sveinsson kom Jötnum yfir snemma leiks og bætti svo við öðru marki um miðjan fyrsta leikhlutann áður en Ingi Hafdísarson minnkaði muninn fyrir Húna. Helgi Gunnlaugsson skoraði eina markið í öðrum leikhluta og kom Jötnum í 3-1. Kristján Kristinsson minnkaði muninn í 3-2 snemma í þriðja leikhluta, en Steinar Grettisson svaraði fyrir Jötna. Lokatlur: Jötnar - Húnar 4-2 (2-1, 1-0, 1-1).

Leikurinn skipti engu máli upp á stöðuna í deildinni og bar hann þess nokkur merki og til að mynda tefldu bæði liðin fram leikmönnum úr 3. flokki. Fyrir leikinn voru Húnar komnir í 29 stig en Jötnar 22 stig. Húnar hafa lokið leikjum sínum, en Jötnar eiga eftir að fá SR Fálka í heimsókn og geta því komist í 28 stig. Sigurinn í gærkvöldi skiptir engu máli upp á röð liðanna en taflan lítur samt betur út núna með 29/25 (og möguleikanum á 28) heldur en til dæmis 32/22 ef Húnar hefðu sigrað.

Ómar Smári Skúlason markvörður spilaði í gærkvöldi sinn fyrsta leik síðan í byrjun janúar, en þá meiddist hann á ökkla og hefur verið frá æfingum og keppni í nokkrar vikur. Þá má einnig geta þess að Steinar Grettison mætti aftur til leiks eftir nokkurt hlé, skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu.

Mörk/stoðsendingar
Jötnar
Sigmundur Sveinsson 2/0
Steinar Grettisson 1/1
Stefán Hrafnsson 0/2
Helgi Gunnlaugsson 1/0
Andri Már Ólafsson 0/1
Ingþór Árnason 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Sigurður Reynisson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 17 (8+5+4)

Húnar
Ingi Hafdísarson 1/0
Kristján Kristinsson 1/0
David MacIsaac 0/1
Andri Sigurvinsson 0/1
Refsingar: 22 mínútur
Varin skot: 29 (10+15+4)

Næsti leikur Jötna, og jafnframt lokaleikur þeirra í deildinni, verður þriðjudaginn 5. mars, en þá koma SR Fálkar í heimsókn norður.