Jötnar sigruðu og fóru upp fyrir Húna

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (30.11.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (30.11.2013)


Tveir "gamlir" SA-menn, Jón Benedikt Gíslason og Hafþór Andri Sigrúnarson, eru komnir heim og spiluðu fyrir Jötna í kvöld. Jón skoraði þrennu í 7-5 sigri liðsins á Húnum.

Það voru gestirnir sem komust yfir með eina marki fyrsta leikhlutans eftir tæplega sex mínútna leik.

Jötnar jöfnuðu og komust yfir snemma í öðrum leikhluta, með mörkum Jóns B. Gíslasonar og Sigurðar S. Sigurðssonar, en Húnar jöfnuðu þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leikhlutanum. Á lokamínútunum skoruðu Jötnar þrívegis og breyttu stöðunni í 5-2. Fyrst var það Orri Blöndal, þá Jón með sitt annað mark og svo Jóhann Már Leifsson.

Snemma í þriðja leikhluta bætti Jón við sínu þriðja marki og sjötta marki Jötna. Staðan orðin 6-2 og verkefnið framundan að sigla sigrinum heim. En Húnar komu sér aftur inn í leikinn með þremur mörkum á um þriggja mínútna kala og staðan allt í einu orðin 6-5.

Þá lokuðu Jötnar og gerðu vel að halda forystunni á lokamínútunum þegar þeir misstu mann í refsiboxið. Húnar freistuðu þess að nýta liðsmuninn, tóku markvörðinn út af til að fjölga í sókninni. Tilraunir þeirra strönduðu á vörn Jötna og svo síðustu hindruninni, markverðinum Rett Vossler. Á lokasekúndunum náðu svo Jötnar pökknum, Jóhann Már Leifsson skautaði upp vinstri kantinn og skoraði í autt markið. Lokatölur: Jötnar - Húnar 7-5 (0-1, 5-1, 2-3).

Með sigrinum komust Jötnar upp fyrir Húna og eru nú efstir af B-liðum félaganna með 14 stig eftir 12 leiki. Húnar eru með 13 stig eftir 11 leiki og Fálkar 11 stig eftir 11 leiki.

Atvikalýsing (ÍHÍ)

Mörk/stoðsendingar
Jötnar
Jón B. Gíslason 3/0
Jóhann Már Leifsson 2/1
Orri Blöndal 1/1
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Ben DiMarco 0/1
Stefán Hrafnsson 0/1
Helgi Gunnlaugsson 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 33

Húnar
Edmund Induss 2/0
Ellert Þórsson 1/0
Lars Foder 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Bóas Guðmundsson 0/2
Refsimínútur: 6
Varin skot: 28

Næsti leikur Jötna verður laugardaginn 25. janúar þegar þeir heimsækja Húna í Egilshöllina. Næsti meistaraflokksleikur í Skautahöllinni á Akureyri verður hins vegar þriðjudaginn 21. janúar þegar Víkingar fá SR í heimsókn.