Krulla: Okkar fólk í 2. og 8. sæti í Danmörku

Silfurliðið. Hannela er önnur frá hægri. Mynd: HV
Silfurliðið. Hannela er önnur frá hægri. Mynd: HV


Fimm Akureyringar gerðu það gott á Tårnby Cup krullumótinu í Kaupmannahöfn um liðna helgi. Lið héðan í 8. sæti og leikmaður héðan í blönduðu liði sem fór alla leið í úrslitaleikinn.

Fimm Akureyringar héldu utan og tóku þátt í Tårnby Cup krullumótinu í Kaupmannahöfn um liðna helgi. Annars vegar var eitt fjögurra manna lið en það skipuðu þeir Davíð Valsson, Hallgrímur Valsson, Kristján Sævar Þorkelsson og Rúnar Steingrímsson. Hins vegar gekk Hannela Matthíasdóttir til liðs við blandað lið með Dana, Norðmanni, Hollendingi og Skota. Tveir liðsfélagar Hannelu eru akureyrsku krullufólki reyndar að góðu kunnir, annars vegar hin danska Camilla Jensen og svo skoski ísmaðurinn Mark Callan.

Liðið sem Hannela spilaði með vann fyrstu fjóra leiki sína og var þar með komið alla leið í úrslitaleikinn. Þar lentu þau á móti reynsluboltum, Bistrup-systrum, sem kepptu fyrir hönd Danmerkur á Ólympíuleikunum í Nagano 1998, og töpuðu þeim leik naumlega. Niðurstaðan varð því annað sætið sem er frábær árangur.

Strákarnir kölluðu sig Team Opal. Þeir hófu ferðina reyndar á því að fara til Helsingborgar þar sem þeir spiluðu æfingaleik við lið þaðan sem kallar sig Queens og kom til Íslands vorið 2004. Sá leikur endaði með jafntefli.

Fyrsti leikur Team Opal var gegn áðurnefndu liði Bistrup-systra, sem síðan stóð uppi sem sigurvegari mótsins. Þær dönsku höfðu sigur með einu stigi. Opal-liðið vann síðan annan leik sinn sannfærandi, gegn karlaliði frá Helsingborg. Í þriðja leiknum mættu þeir Hannelu og félögum. Sá leikur var mjög jafn og staðan 2-2 fyrir síðustu umferð, en þá skoruðu andstæðingarnir tvo steina og tryggðu sér sigur. Eftir þrjár umferðir var liðið í 16. sæti og spilaði gegn rússnesku kvennaliði sem reyndar skartaði einnig dönskum karlmanni. Sá leikur vannst nokkuð sannfærandi og hækkaði liðið sig þar með upp í 8. sæti, en alls tóku 26 lið þátt í mótinu. 

Strákarnir unnu semsagt tvo leiki en töpuðu tveimur – gegn liðunum sem spiluðu síðan til úrslita um efsta sætið. Þetta er besti árangur sem alíslenskt lið hefur náð á þessu móti í Tårnby.

Sum liðin sem taka þátt í Tårnby Cup leggja mikið í búningana, enda er þetta mót að hluta til búningakeppni og ávallt veitt verðlaun fyrir flottasta búninginn. Drottningarnar frá Helsingborg láta sitt ekki eftir liggja í þeim efnum. Tvær af þeim sem spiluðu með liðinu að þessu sinni komu til Íslands og kepptu á Ice Cup 2004.