Karfan er tóm.
Við val á krullufólki ársins hefur Krulludeild SA litið til þess árangurs sem iðkendur hafa náð í íþróttinni og virkni iðkenda í starfi félagsins. Ýmist hefur stjórn krulludeildar séð um valið eða allir iðkendur séð um að kjósa krullufólk ársins. Þar sem takmarkað starf var á árinu og lítið um mót sökum framkvæmda við Skautahöllina, var það stjórn krulludeildar sem sá um valið að þessu sinni.
Kristján Sævar Þorkelsson og Rannveig Jóhannsdóttir eru krullufólk ársins 2016.
Kristján Sævar Þorkelsson, leikmaður Ice Hunt, varð efstur í kjöri stjórnar sem Krullumaður ársins 2016. Kristján hóf krulluferilinn með vinnufélögum sínum í liðinu Kústar en hefur einnig leikið með m.a. Víkingum og nú Ice Hunt. Hann hefur unnið nánast alla titla sem í boði eru svo sem Bikar-, Akureyrar- og Íslandsmeistaratitla. Kristján hefur einnig keppt fyrir Íslands hönd á mótum erlendis, t.d. evrópumótum og heimsmeistramótum bæði sem A-landsliðsmaður og einnig með landsliði 50 ára og eldri.
Kristján er fyrirmyndar íþróttamaður, yfirvegaður, vandvirkur og samviskusamur. Hann leggur sig ávallt allan fram, bæði í leik og starfi fyrir félagið.
Þetta er í fyrsta sinn sem Kristján hlýtur þann heiður að vera valinn Krullumaður ársins og er hann vel að titlinum kominn. Krulludeild Skautafélags Akureyrar óskar honum innilaga til hamingju.
Rannveig Jóhannsdóttir er Krullukona ársins 2016. Rannveig hefur strax frá upphafi náð mjög góðum tökum á íþróttinni og undanfarin ár verið í fremstu röð krullufólks. Rannveig er tæknilega nákvæm, útsjónarsamur stjórnandi og traustur leikmaður. Hún hefur verið burðarásinn í þeim liðum sem hún hefur leikið með og unnið til fjölda verðlauna.
Rannveig hefur gengt stjórnarstörfum fyrir Krulludeildina og er ávallt reiðubúin til að vinna að framgangi íþróttarinnar og vinnur störf sín af vandvirkni, fórnfýsi og samviskusemi.
Þetta er í annað sinn sem Rannveig hlýtur þann heiður að vera valinn krullukona ársins en hún hlaut einnig titilinn árið 2013. Rannveig er vel að titlinum kominn og Krulludeild Skautafélags Akureyrar óskar henni innilaga til hamingju.