Karfan er tóm.
Íslandsmeistaralið Mammúta heldur af landi brott í dag, áleiðis til Tyrklands til að taka þátt í C-keppni Evrópumótsins í krullu.
Liðið skipa þeir Jens Kristinn Gíslason fyrirliði, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Sveinn H. Steingrímsson og Ragnar Jón Ragnarsson. Jens og Sveinn hafa tvisvar áður keppt á Evrópumóti, Jón Ingi og Ólafur einu sinni, en Ragnar Jón er nýliðinn í hópnum.
Strákarnir fljúga til Danmerkur þar sem þeir munu staldra við í nokkra klukkutíma og taka æfingu í krulluhöllinni í Tårnby, skammt frá Kastrup flugvelli. Að lokinni æfingu tekur við næturflug til Istanbúl í Tyrklandi og svo skömmu eftir lendingu þar halda þeir beint í innanlandsflug í Tyrklandi, frá Istanbúl til borgarinnar Erzurum, sem er austarlega í landinu, alveg austur undir Azerbadjan og Georgíu.
Nú stendur yfir Evrópumót í blönduðum liðum (2 karlar, 2 konur) í Erzurum, en fyrsti leikur okkar manna í C-keppninni verður á laugardag. Alls taka sjö þjóðir þátt í keppninni og verða mótherjar Íslands sem hér segir:
Laugardagur 6. október
Hvíta-Rússland og Tyrkland
Sunnudagur 7. október
Lúxemborg og Króatía
Mánudagur 8. október
Slóvenía og Rúmenía
Að því loknu tekur við úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna eftir ákveðnu kerfi og vinna tvö efstu liðin sér inn rétt til þátttöku í B-keppni Evrópumótsins sem fram fer í Karlstad í Svíþjóð í desember.
Fyrirfram má búast við að mótherjar okkar manna á fysta keppnisdeginum verði erfiðastir, en að sjálfsögðu er enginn leikur tapaður (né unninn) fyrirfram. Síðustu tveir leikirnir eru gegn nýjustu aðildarþjóðum Evrópska krullusambandsins, en ekki gott að segja hversu langt á veg keppendur þaðan eru komnir á stuttum tíma. Þar getur aðstaða spilað stórt hlutverk því með góðri aðstöðu geta framfarirnar orðið mjög hraðar.
Mammútar halda úti sinni eigin bloggsíðu, en auk þess má fylgjast með fréttum og úrslitum á heimasíðu mótsins - og að sjálfsögðu er það svo allt saman tengt við Twitter og Facebook.
Mammútar fagna Íslandsmeistaratitlinum 2012: Jens, Jón Ingi, Ólafur, Humi. Sveinn var fjarverandi. Myndir: Ásgrímur Ágústsson.