Kvennalið SA sigrar í fyrsta leik

Í gærkvöldi fór fram fyrsti leikur Íslandsmóts kvenna og fór leikurinn fram hér á Akureyri.   Enn eru liðin í deildinni aðeins tvö, Skautafélag Akureyrar og Björninn en þessi lið hafa keppt um titilinn síðan árið 1999.  Skautafélag Reykjavíkur tefldi fram liði  tímabilið 2002 – 2003 sem gæddi deildina nýju lífi en því miður tókst þeim ekki að halda úti liðinu lengur en í eitt tímabil.

Lið SA hefur ekki tekið miklum breytingum frá því í fyrra og flestir lykileikmenn ennþá hjá liðinu, en helsta blóðtakan er brotthvarf Steinunnar Sigurgeirsdóttur.  Lið Bjarnarins hefur aftur á móti misst fleiri leikmenn s.s. Hönnu Heimisdóttur, hokkíkonu ársins 2006, Flosrúnu Vöku og Karítas markmann.
Sarah Smiley er áfram þjálfari SA liðsins auk þess sem hún kemur til með að leika með liðinu, en hún lék ekki með að þessu sinni þar sem leikheimild var ekki frágengin.

SA liðið spilaði vel og hóf leikinn af miklu öryggi.  Pökkurinn gekk vel á milli leikmanna og liðið leit út eins og býsna samtillt hokkílið.  Fyrsta lota fór 4 – 1 og mörkin hefðu getað orðið fleiri en lítt reyndur markmaður Bjarnarins, sem er aðeins 13 ára, stóð sig með stakri prýði og tók flesta pekki í návígi á meðan langskotin niður við ís voru að detta inn.


Í 2. lotu virtist sem allir leikmenn SA hefðu fengið þá flugu í hausinn að þeir væru best til þess fallnir að skora mörkin upp á eigin spýtur og spilið varð eftir í búningsklefanum.  Bjarnarstúlkur sóttu í sig veðrið, gengu á lagið og áttu fjölmörg skot á markið sem María gerði vel að bægja frá möskvunum, þrátt fyrir að vera hálf köld eftir tíðindalitla 1. Lotu.  Þrátt fyrir lélega lotu vannst hún 2 – 0 og því var markatalan þægileg í upphafi 3. Lotu, 6 – 1. 

Í 3. Lotu fóru hlutirnir að ganga betur aftur og alls skoraði SA 4 mörk gegn 1 og kláruðu fyrsta leikinn með 10 – 2 sigri.  Í liði Bjarnarins var Agga allt í öllu og stöðugt ógnandi en hún sá sjaldnast ástæðu til að gefa pökkinn og því reyndist létt að draga úr hættunni af hennar völdum. 

Heilt yfir var liðið að leika vel og þessi fyrsti leikur gefur góða hugmynd um það sem koma skal.  Í liðinu er leikmenn af ýmsum getustigum, allt frá reynsluboltum yfir í byrjendur en þjálfarinn leyfði öllum að spila og kom byrjendunum inn í leikinn þegar líða tók á.  Leikmenn eru jafnframt í misjöfnu formi enda slíkt ekki óþekkt í upphafi tímabils.

Mörk SA skoruðu:
Sólveig Smáradóttir 2/2, Jónína Guðbjartsdóttir 1/2, Birna Baldursdóttir 2/0, Guðrún Blöndal 1/0, Hrund 1/0, Vigdís Aradóttir 1/0, Sigrún Sigmundsdóttir 1/0, Rósa Guðjónsdóttir 1/0.


Mörk Bjarnarins skoruðu Agga og Ingibjörg

 

Meðfylgjandi mynd var tekin að leik loknum.