Karfan er tóm.
Jón Gísla skoraði fyrsta mark leiksins og sitt fyrsta mark af fjórum í leiknum, snemma leiks með skrýtnu skoti þar sem pökkurinn skoppaði að kylfu Ala-Lathi langt upp í loft og féll svo bak við hann og rúlaði yfir marklínuna. Bjarnarmenn bættu síðan við tveimur Power Play mörkum eftir þetta áður en Jón Gísla jafnaði á ný. Staðan var því 2 – 2 þegar 1. lotu lauk. Við lentum í töluverðum vandræðum með að halda okkur á ísnum og voru það fyrst og fremst gömlu lamparnir úr Nörfunum sálugum sem sátu í skammarkróknum, Helgi, Héðinn og Elvar áttu þar hlut að máli, en Helgi var víst meira útaf en inná í þessum leik.
Í 2. lotu gekk hvorki né rak og þrátt fyrir margar afbragðs sóknir féll pökkurinn ekki okkar megin og þeir sunnlensku bættu við tveimur mörkum án þess að við gætum svarað fyrir okkur og lentum því undir 2 – 4 eftir lotuna. Ekki skorti þó færin hjá okkur en Ala-lathi skellti í lás, dróg fyrir gluggatjöldin og sýndi á stundum meistaratakta á milli stanganna.
Áframhaldandi þungar sóknir okkar í 3. lotu fóru að lokum að bera árangur og við unnum lotuna 3 – 0 komumst þar með einu marki yfir í 5 – 4 og héldum út til endaloka. Við fengum þó dálítinn mótbyr í lokin, fengum dæmt af okkur mark þegar skammt var til leiks loka auk þess sem mikil spenna einkenndi síðustu sekúndur leiksins. Þegar 6 sek voru eftir áttu Bjarnarmenn uppkast í okkar varnarsvæði. Á þeirri stundu voru aðeins 3 leikmenn inná í okkar liði og 4 í Birninum en þeir tóku út markmanninn hjá sér og bættu við 5. manni.
Eftir uppkastið tókst ágætlega að halda pekkinum og tefja leikinn en þá gleymdist að setja klukkuna af stað og aðeins 4 sek var bætt við tímann. Því var tekið annað uppkast en tíminn var of naumur fyrir Bjarnarmenn, og endi var bundinn á 3ja leikja ósigratörn.
Einhver talnaglöggur hefur reiknað út að nú þurfi SA aðeins einn sigurleik til viðbótar til að tryggja sér sæti í úrslitum, en það verður þó ekki selt dýrara en það var keypt. Það verður þó einhver bið á því að úr því fái skorist því næsti leikur SA verður ekki fyrr enn undir lok mars, þannig að nú tekur við langt frí.
Það er óhætt að segja að Jón Gíslason hafi verið maður leiksins fyrir okkur norðanmenn en hann setti eins og áður sagði 4 mörk og hefði getað sett a.m.k. önnur 4 ef Ala-Lathi hefði ekki verið því banastuði sem raun bar vitni.
Mörk/stoðsendingar SA:
Jón B. Gíslason 4/0, Guðmundur Guðmundsson 1/0, Tomas Fiala 0/2 , Helgi Gunnlaugsson 0/2, Sigurður Sigurðusson 0/1
Brottvísanir SA: 36 mín.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Kópur Guðjónsson 1/1, Daði Örn Heimisson 1/1, Kolbeinn Sveinbjarnarson 1/0, Trausti Bergmann 1/0, Birgir J. Hansen 0/2, Sergei Zak 0/1, Stefán Þ. Kristinsson 0/1, Róbert Freyr Pálsson 0/1
Brottvísanir Björninn: 22 mín.