LSA eignaðist 5 Íslandsmótsmeistara og einn Íslandsmeistara um helgina á Íslandsmóti/Íslandsmeistaramóti ÍSS

Keppendur LSA á seinni keppnisdegi Íslandsmóts ÍSS
Keppendur LSA á seinni keppnisdegi Íslandsmóts ÍSS

Þá er seinni degi Íslandsmóts/Íslandsmeistaramóts ÍSS lokið. Stúlkurnar okkar stóðu sig allar gríðarlega vel og eignuðumst við 2 Íslandsmótsmeistara til viðbótar í dag þær Freydísi Jónu og Evu Björg og einn Íslandsmeistara, hana Mörtu Maríu. En ekki er talað um Íslandsmeistaramót hjá barnaflokkum hjá Skautasambandinu.

Mótið í morgun hófst með keppni í 8 ára og yngri A og 10 ára og yngri A. Þar áttum við einn keppanda hana Freydísi Jónu Jing. Hún sigraði sinn flokk með 24.43 stig.

Næst áttum við keppandi í unglingahóp B hana Evu Björg. Hún sigraði sinn flokk með 37.76 stigum.

Því næst var komið að keppni með frjálsa prógrammið hjá stúlknaflokki A. Þar öttu kappi þær Aldís Kara, Ásdís Arna og Marta María, líkt og á fyrri mótum.

Marta María skautaði frábært frjálst prógramm í dag sem skilaði henni 51.36 stigum sem er nærri hennar besta fyrir frjálsa. Hún sigraði flokkinn samanlagt með 79.28 stigum og er hún því Íslandsmeistari í stúlknaflokki. 

Ásdís Arna Fen skautaði fínt frjálst prógramm í dag sem skilaði henni 43.20 stigum og dugði það henni í annað sætið með 71.07 stig eftir frábæran árangur í stutta prógramminu í gær.

Aldís Kara skautaði mjög vel frjálsa prógrammið í dag sem skilaði henni 45.16 stigum og hækkaði upp í þriðja sætið með 68.05 stig.

Þær vinkonur hafa staðið á palli á öllum mótum haustsins og hafa þær allar tryggt sér sæti í Úrvalshóp ÍSS fyrir skautaárið 2016/2017.

Að síðustu var komið að keppni með frjálsa prógrammið í Unglingaflokki A. Elísabet Ingibjörg átti ekki sinn besta dag í dag. Hún hafnaði í sjötta sæti með 46.43 stig fyrir frjálsa og 74 stig samanlagt.

Stelpurnar okkar 15 stóðu sig allar glimrandi vel og óskum við þeim, foreldrum og þjálfara öllum innilega til hamingju og óskum þeim góðarar ferðar heim.