Meira af Íslandsmóti barna og unglinga/Íslandsmeistarmóti ÍSS 2019

Íslandsmót barna og unglinga og Íslandsmeistaramót ÍSS fór fram í Laugardalnum um helgina. SA átti 6 keppendur á mótunum. 3 stúlkur kepptu á Íslandsmóti barna og unglinga.  Í Basic Novice kepptu þær Berglind Inga og Sædís Heba og í Intermediate Novice keppti Telma Marý. Á Íslandsmeistarmótinu áttum við 3 keppendur þær Freydísi Jónu Jing og Júlíu Rós í Advanced Novice og Aldísi Köru í Junior. Marta María var líka skráð til leiks, en þurfti að draga sig úr keppni vegna veikinda.

Basic Novice  Intermediate Novice

Á laugardaginn hófu stúlkurnar í Basic Novice keppni. Þær skiluðu báðar fallegum prógrömmum og enduðu leikar þannig að Berglind Inga sigraði flokkinn með 25.23 stig og Sædís Heba hafnaði í þriðja sæti með 24.03 stig. Þá var komið að keppni í Intermediate Novice og skilaði Telma Marý gullfallegu prógrammi á nýju persónulegu stigameti, sem er 23.34 stig og hafnaði hún í þriðja sæti.

Að verðlaunaafhendingu í þessum flokkum lokinni var komið að keppni með stutt prógramm í Advanced Novice. Freydís Jóna skautaði fyrst inn á ísinn og skilaði hún glæsilegu prógrammi, nær öllu á plúsum og fékk fyrir það 26,48 stig sem er persónulegt met hjá henni. Júlía Rós var þriðja inn á ísinn og skilaði hún nær lýtalausu prógrammi, öllu á plúsum og full level á báðum spinnum. Það skilaði henni 28.86 stigum. Að loknum fyrri deginum stóð Júlía efst og Freydís önnur.

Þá var komið að keppni í Junior. Aldís Kara skilaði gullfallegu prógrammi. Hún byrjaði á að lenda tvöföldum axel á plúsum og strax í kjölfarið þreföldu schalcow í samsetningu með tvöföldu toeloopi á plúsum, hún datt svo í þreföldu loopi. Hún missti level á 2 spinnum en endaði prógrammið á fallegum spinni á level 4. Þetta skilaði henni 39,74 stigum og stóð hún önnur að loknum fyrri deginum.

Advanced Novice

Á sunnudaginn hélt keppni áfram og að lokinni verðlaunaafhendingu hjá Cups og Chicks var komið að frjálsaprógramminu hjá Advanced Novice. Freydís Jóna var fimmta inn á ísinn, þar sem keppt er í öfugri sæta röð með frjálsa. Hún sýndi ótrúlega staðfestu og skilaði fallegu, en um leið gríðarhröðu, prógrammi. Prógrammið skilaði henni 44,39 stigum og náði líka nýju persónulegu stigameti fyrir frjálsa. Hún lauk því keppni á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti í öðru sæti með 70,87 stig.

Júlía Rós var síðust inn á ísinn af Novicunum og skilaði hún dásamlegu prógrammi  með nánast öll element á plúsum, annan spinninn og sporinn á fullum levelum og flotta einkunn fyrir componenta. Framistaðan skilaði henni 51,97 stigum fyrir frjálsa prógrammið og 80,83 stig. Hún var því krýnd Íslandsmeistari árið 2019 að móti loknu.

Junior

Þá var komið að Juniorflokknum. Spennan var mikil enda mjótt á munum á milli Aldísar Köru og Viktoríu Lindar frá SR sem stóð efst að loknum fyrri deginum. Aldís Kara skautaði þriðja inn á ísinn. Hún skilaði frábæru prógrammi sem saman stendur af mörgum erfiðum elementum meðal annars 2 tvöföldum Axelum bæði sóló og í samsetningu tveimur þreföldum shalcowum annað sóló og hitt í samsetningu. Jafnframt lenti hún þreföldu toeloopi á plúsum. Hún var með full level á tveim spinnum en er enn í vandræðum með level á einum spinn. Þessi flugeldasýning skilaði Aldísi Köru tæknieinkunn upp á 43,62 og 78,48 stigum fyrir frjálsa prógrammið. Samanlagt fékk Aldís Kara 118,22 stig sem skilaði henni Íslandsmeistaratitlinum árið 2019.

Þetta er frábær árangur hjá stelpunum okkar. Stelpurnar okkar skiluðu sér allar á verðlaunapall og að auki eignuðumst við tvo nýja Íslandsmeistara.

Við óskum stelpunum og foreldrum þeirra innilega til hamingju og um leið óskum við Darju þjálfara innilega til hamingju með árangurinn.

(Allar myndir með fréttinni eru fengnar af facebook síðu Skautasambandsins)