Karfan er tóm.
Meistaraflokkurinn bar sigur úr býtum í leik gærdagsins í Egilshöllinni með 6 mörkum gegn 3. Þrátt fyrir markamuninn var sigurinn ekki auðveldur en Björninn er með skemmtilegt lið, marga hraða leikmenn sem spila af miklum ákafa þannig að lítið ráðrúm gefst til að dóla með pökkinn. Leikurinn var jafn í upphafi og liðin skiptust á að skora. Fyrsta mark leiksins skoraði hinn ungi og efnilegi Jóhann Leifsson eftir sendingar frá Stefáni Hrafnssyni og Sigurði Sigurðssyni. Björninn jafnaði leikinn áður en SA jók forystuna aftur eftir mark frá Sigurði Sigurðssyni í power play. Björninn var hins vegar ekki hættur og Brynjar Þórðarson jafnaði leikinn fyrir lok lotunnar, staðan því 2-2 eftir 1. lotu.
Í 2. lotu var SA áfram skrefi á undan og Sigurður Sigurðsson bætti við 3. markinu eftir frákast eftir skot frá Ingólfi Elíassyni frá bláu línunni og góða vinnu Stefáns Hrafnssonar við markteiginn. Þjálfari SA, Josh Gribben skoraði svo 4. markið í power play, en hann er nú snúinn aftur til liðsins eftir nokkurra vikna frí. Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og SA því í þægilegri 4 - 2 stöðu fyrir 3. lotuna. SA bætti við tveimur mörkum í 3. lotu en þar var annars vegar á ferðinni Stefán Hrafnsson í power play eftir frákast eftir skot frá Birni Má Jakobssyni frá bláu, sem fór í rammann fyrir aftan markið og þaðan beint í spaðann hjá Stefáni. Síðasta markið kom svo frá Gunnarri Darra Sigurðssyni, sem var að snúa aftur í liðið eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Björninn klóraði aðeins í bakkann og bætti við þriðja markinu áður en yfir lauk, en það kom ekki að sök.
Þetta var næst síðasti leikur okkar fyrir áramót, en Björninn mun koma norður í jólaleik þann 27. desember.
Dómarar tóku upp á þeirri nýbreytni að tvímenna í aðaldómgæslunni og segja má að það hafi komið vel út. Þessi leikur var reyndar frekar auðveldur viðureignar og gagnsemi kerfisins kemur væntanlega betur í ljós í erfiðari leikjum líkt og SA-SR leikjum.
Á eftir meistaraflokknum tókust á 3. flokkar beggja liða sem lauk með auðveldum 12-0 sigri Bjarnarins, sem virðast vera með langsterkasta liðið í þessum flokki í ár.
Mörk/stoðsendingar SA:
Sigurður S. Sigurðsson 2/2
Stefán Hrafnsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/0
Josh Gribben 1/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/2
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsimínútur SA: 12 mín.
Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Brynjar F. Þórðarson 1/1
Gunnar Guðmundsson 1/0
Trausti Bergmann 1/0
Birgir Hansen 0/2
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Bergur Einarsson 0/1
Refsimínútur Björninn: 16 mín