Nýr þjálfari hjá SA: Richard Tahtinen


Hann er fæddur í vinabæ Akureyrar í Finnlandi, unnusta hans er frá Akureyri og því vel við hæfi að hann skuli kominn til Skautafélags Akureyrar eftir að hafa starfað fyrir bæði Reykjavíkurfélögin sem og ÍHÍ. Unnustan getur nú loksins hvatt sitt heimalið.

Fyrsti leikur Víkinga undir stjórn nýs þjálfara verður í kvöld kl. 19.40 gegn Birninum.

Richard Tahtinen var í vor ráðinn til starfa semÞjálfari meistaraflokks karla í íshokkí hjá Skautafélagi Akureyrar. Í kvöld leikur liðið sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu á þessu tímabili þegar Bjarnarmenn koma í heimsókn. Talsverðar breytingar hafa orðið á liði Víkinga frá liðnum vetri, en nýi þjálfarinn hefur skýra sýn á það hvað hann vill, hvernig lið hann vill byggja upp – áhorfendur mega eiga von á hröðu, kröftugu og vel skipulögðu hokkíi hjá okkar mönnum í vetur.

Heimasíðuritari hafði samband við Richard og fékk hann til að upplýsa aðeins um fortíð sína í hokkíinu og hvaða hugmyndir hann mætir með til Akureyrar.

Í vinabæ Akureyrar
Svo skemmtilega vill til að Richard fékk sína fyrstu hokkíþjálfun í Lathi í Finnlandi, en vinabæjasamband hefur verið milli Lahti og Akureyrar frá 1947. Sautján ára hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann spilaði með í A-unglingaliði (3. fl.) Portland Hawks (AAA-midged hockey). Eftir frábært ár þar flutti hann aftur heim til Finnlands og spilaði fyrir A-unglingalið Pelicans í Lathi. Hann spilaði fyrir Pelicans í tvö tímabil, en ákvað þá að hætta og gekk í herinn. En honum fannst erfitt að vera án þess að koma nálægt hokkíinu þannig að þegar hann flutti til Íslands 2002 byrjaði hann aftur að spila. Hann var hins vegar svo óheppinn að meiðast illa á hné það sama ár og varð að gefa ferilinn upp á bátinn, en hefur þó síðan þá spilað nokkra leiki í 2. deild í Svíþjóð og í deildarkeppninni hér á landi, en gömlu hnémeiðslin virðast hafa bundið enda á leikmannsferil Richards.

Með víðtæka reynslu af þjálfun
Richard er með B.S. gráðu í þjálfun og íþróttafræðum frá Linnaeus-háskólanum í Svíþjóð og B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hóf þjálfaraferilinn á námsárum sínum í Svíþjóð þar sem hann þjálfaði unglingalið (J-15, J-16 og J-18/20) í Alvesta SK og í allmörgum æfingabúðum. Hann hefur einni lokið við næstæðstu þjálfaragráðu í gegnum sænska hokkísambandið. Áður en hann flutti til Íslands 2008 þjálfaði hann Redhawks -94 liðið í Malmö og vann með íslenska landsliðinu sem aðstoðarþjálfari á HM í Suður-Kóreu og Ástralíu. Hann hefur þjálfað á öllum stigum í félagsliðunum í hokkíinu hér á landi, auk þess sem hann var landsliðsþjálfari karla í tvö tímabil og kvenna í eitt. Segja má að hann loki hringnum með því að koma til Akureyrar því þar með hefur hann verið viðriðinn öll þrjú skautafélögin hér á landi.

Spurður um þjálfunaraðferðir segir hann þær vera blöndu frá hokkíinu Finnlandi, Svíþjóð og Norður-Ameríku. Hann kveðst leggja áherslu á hratt, beinskeytt og líkamlegt hokkí. Stefnan er jafnframt sett á að byggja skýra leikaðferð inn í liðið og að því verður unnið af mikilli elju næsta mánuðinn. „Þegar líður á tímabilið tel ég að áhorfendur muni sjá mjög hratt og kröftugt hokkí hjá vel skipulögðu liði. Ég er mjög spenntur fyrir því að þjálfa Víkinga og Jötna,“ segir Richard, en hann hefur þjálfað marga af leikmönnum okkar áður í gegnum landsliðið.

Kraftur, stærð og frábær liðsandi
Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum, nokkrir leikmenn hafa hætt eða snúið sér annað, en aðrir komið í staðinn. Einnig er unnið að því að styrkja liðið enn frekar. „Sem stendur er hópurinn frekar lítill, en þegar við verðum komnir með fullskipað lið verður þetta frábær hópur og góð blanda af ungum og „gömlum“. Styrkleiki okkar er kraftur og stærð samanborið við Reykjavíkurliðin. Við erum líka með næstum alla varnarmenn landsliðsins og með þeim erlendu leikmönnum sem von er á tel ég að við verðum með áhugavert lið fyrir þessa leiktíð. Það sem gerir síðan þetta tækifæri enn skemmtilegra er frábær liðsandi, einarðir einstaklingar og íþróttamenn, að ekki sé nú minnst á að núna fær unnusta mín – loksins – að hvetja sitt heimalið því hún er frá Akureyri,” segir Richard Tahtinen.

Breytingar
Eins og áður var nefnt hafa orðið talsverðar breytingar á leikmannahópnum.

Hættir eða farnir annað: Sæmundur Leifsson, Hilmar Leifsson, Sigmundur Sveinsson, Guðmundur Snorri Guðmundsson, Lars Foder, Ómar Smári Skúlason, Hermann Knútur Sigtryggsson, Hafþór Andri Sigrúnarson og Steinar Grettisson.

Nýir: Sigurður Árnason frá Birninum og Ingólfur Tryggvi Elíasson frá Svíþjóð. Auk þeirra eru tveir Bandaríkjamenn á leiðinni, og aðeins beðið eftir því að pappírsvinnan klárist. Þá er Gunnar Darri Sigurðsson kominn aftur úr fríi. Til viðbótar er vonast eftir því að Jón Benedikt Gíslason snúi aftur heim og jafnvel að 1-2 danskir leikmenn fylgi með honum.

Andri Már Mikaelsson verður ekki með í leiknum í kvöld, en hann er núna á reynslu hjá liði í Finnlandi.

Við óskum Richard Tahtinen velfarnaðar í starfi þjálfara hjá SA.