Orri Blöndal íshokkímaður SA 2017

Orri Blöndal hefur verið valinn íshokkímaður SA árið 2017.

Orri er 27 ára varnarmaður og er aðstoðarfyrirliði í liði SA Víkinga. Orri spilaði hefur spilað stórt hlutverk í liði SA Víkinga á árinu 2017 og er einn allra besti varnarmaður Íslands.

Orri er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur en hann hóf ferilinn í meistaraflokki árið 2004 aðeins 15 ára gamall og hefur unnið 8 Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki. Orri var 15 ára valinn í fyrsta sinn í landslið Íslands en þá var hann bæði valinn í U-18 og U-20 ára landslið Íslands. Orri hefur spilað með öllum landsliðum Íslands og gerði það til ársins 2016 en hann hefur farið á 6 heimsmeistaramót með karlalandsliði Íslands. Orri lék eitt tímabil erlendis þar sem hann lék með unglingaliði IK Panterns í Svíþjóð árið 2008 en utan við það hefur hann alltaf leikið fyrir SA.

Orri er mikill keppnismaður sem spilar mjög líkamlega fast og skilur alltaf eftir allt sitt á vellinum. Orri er með einstaklega góða skautagetu og er með hraðari leikmönnum sem Íslands hefur alið af sér. Orri er þekktur fyrir að skauta völlinn endana á milli og sín þrumuskot en Orri skorar jafnan mikið af mörkum þrátt fyrir að vera varnarmaður.

Orri er mikil og góð fyrirmynd fyrir ungu kynslóðina en hann er sannur Víkingur sem veður eld og brennistein fyrir liðið sitt. Skautafélag Akureyrar er stolt af að hafa Orra Blöndal í sínum röðum og hann er sannarlega vela að nafnbótinni kominn.

Við óskum Orra innilega til hamingju með nafnbótina.

 

Orri með viðurkenninguna ásamt formanni Hokkídeildar og íshokkíkonu ársins. (mynd: Ásgrímur Ágústsson)