Óvissa um hokkíleiki laugardagsins

Þessi mynd er augljóslega úr safni. Mynd: HI.
Þessi mynd er augljóslega úr safni. Mynd: HI.


Ákvörðun um hvort leikirnir fara fram verður tekin í býtið í fyrramálið.

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að óveður hefur stormað yfir landið þvert og endilangt. Nú þegar hefur landsliðsæfingum karla sem vera áttu hér á Akureyri um helgina verið frestað um óákveðinn tíma.

Samkvæmt mótaskrá ÍHÍ eiga að fara fram tveir hokkíleikir í Skautahöllinni á Akureyri á morgun, laugardag, Jötnar-Björninn í mfl. karla og Ynjur-Björninn í mfl. kvenna. Tilkynnt verður í fyrramálið hvort leikirnir muni fara fram á tilsettum tíma.

Eftirfarandi tilkynning er á vef ÍHÍ:
Mótanefnd ÍHÍ hefur fundað vegna leikjanna sem fyrirhugaðir eru á morgun í meistaraflokki karla og kvenna. Ákveðið hefur verið að klukkan 8.30 í fyrrmálið verði gefið út hvort leikirnir fara fram eður ei og verður það tilkynnt hér á heimasíðu ÍHÍ.