Karfan er tóm.
Ragnhildur Kjartansdóttir hefur verið valin íshokkíkona SA og Gunnar Aðalgeir Arason íshokkíkarl SA fyrir árið 2021.
Ragnhildur er 21 árs varnarmaður og fyrirliði kvennaliðs SA sem urðu bæði deildar- og Íslandsmeistarar árið 2021. Ragnhildur var stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins en hún skoraði 11 mörk og gaf 9 stoðsendingar í 7 leikjum og átti stóran þátt í velgengni liðsins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnhildur leikið í meistaraflokki í 8 ár en hún lék einnig eitt tímabil erlendis þar sem hún spilaði með stórliðinu Färjestad í Svíþjóð. Ragnhildur hefur spilað 28 leiki fyrir kvennalandsliðs Íslands í íshokkí og var aðstoðarfyrirliði liðsins þegar það tók þátt í undankeppni Ólympíuleikanna á árinu. Ragnhildur er mikil og góð fyrirmynd en einnig leiðtogi sem leiðir með sínu eigin fordæmi og er afskaplega vel að titlinum komin.
Gunnar Arason er 20 ára varnarmaður SA Víkinga. Gunnar kom ungur að árum inn í meistaraflokk SA árið 2016 þá aðeins 15 ára gamall. 17 ára gamall fór Gunnar til Kanada og spilaði tvö tímabil með A21 Academy en þaðan lá leiðin til Nyköping í Svíþjóð þar sem Gunnar spilaði hálft tímabil en snéri heim á miðju tímabili vegna Covid-19 veirunnar sem endaði tímabilið ytra. Gunnar kom því aftur heim í SA í byrjun árs 2021 og spilaði stórt hlutverk í liði SA Víkinga sem unnu bæði deildar- og Íslandsmeistaratitilinn 2021. Gunnar spilar einnig með landsliði Íslands í íshokkí en hann kom inn í karlaliðið árið 2019 en fyrir það hafði hann spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og verið fyrirliði bæði U18 og U20 landsliða Íslands. Gunnar leggur gríðarlega hart að sér og hefur ávallt gert til þess að ná langt í íþróttinni sinni. Gunnar er frábær liðsleikmaður sem settur liðið fram fyrir sjálfan sig og nýtur virðingar sem leiðtogi í sínum liðum. Gunnar gefur einnig mikið af sér til næstu kynslóðar með þjálfun í yngri flokkum og er frábær fyrirmynd í alla staði.
Skautafélag Akureyrar er stolt af að hafa þau Ragnhildi og Gunnar í sínum röðum og óskar þeim innilega til hamingju með titlanna.