Karfan er tóm.
Í gær mættust kvennalið SA, Ásynjur og Ynjur, í sinni sjöttu viðureign á tímabilinu. Fyrir leikinn höfðu Ásynjur eins stigs forystu á Ynjur þannig að baráttan um deildarmeistaratitilinn er hörð. Ásynjur byrjuðu af krafti og skoruðu strax eftir 17 sek þegar Anna Sonja þrumaði pekkinum í markið frá bláu línunni eftir stoðsendingu frá Birnu og Söruh. Ásynjur voru mjög ákveðnar það sem eftir var lotunnar en Ynjur áttu líka sín færi en mörkin urðu ekki fleiri í lotunni. Ásynjur voru betri heilt yfir í lotunni og spiluðu betur saman, meðan sendingar Ynja voru á köflum misheppnaðar og ónákvæmar.
Ásynjur höfðu öll völd í annarri lotu. Eftir rúmar tvær mínútur skoraði Birna skoraði annað mark þeirra eftir harða sókn, með stoðsendingu frá Önnu Sonju og Söruh. Leikur Ynja virtist hruninn, sendingar þeirra voru ónákvæmar og Ásynjur voru miklu ákveðnari og betri. Eva skoraði þriðja mark Ásynja þegar lotan var rúmlega hálfnuð og allt virtist stefna í öruggan sigur þeirra. Ynjur náðu þó að klóra í bakkann þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af lotunni þegar Sunna kom pekkinum í markið eftir að Silvía hafði lagt hann laglega fyrir hana. Þá var eins og Ynjurnar vöknuðu aðeins en heilt yfir gerðu þær of mikið af mistökum og átt of mikið af ónákvæmum sendingum.
Þær komu hins vegar miklu öflugri og ákveðnari inn í síðustu lotuna og eftir tæpa eina og hálfa mínútu notfærði Silvía sér að Ásynjur áttu leikmann í boxinu og þrumaði pekkinum í markið. Stoðsendinguna áttu Sunna og Ragnhildur. Um miðja lotuna var Apríl send í boxið eftir dóm sem Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, mótmælti og var hann í framhaldinu sendur af bekknum. Björn Már Jakobsson tók þá við stjórninni. Ynjur virtust ekki láta stjórnarskiptin á sig fá og þegar tæpar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka jafnaði Silvía leikinn með stoðsendingu frá Ragnhildi. Ynjurnar efldust við þetta og var mikið fjör síðustu mínúturnar en leikurinn endaði 3-3 og því var framlengt.
Leikmenn beggja liða voru þreyttar í framlengingunni og spennan var gríðarleg. Hvorugu liðinu tókst að skora í framlenginunni þannig að næst var það vítakeppni. Spennan hélt áfram, eftir fyrstu þrjú vítin hafði hvort lið skorað úr einu þannig að enn var jafnt. Það var síðan Sarah Smiley sem náði að tryggja Ásynjum síðasta stigið í fjórða vítaskotinu og sigur Ásynja var í höfn.
Ásynjur voru mun ákveðnari í leiknum og leikur þeirra betri. Ynjur sýndu þó gríðarlegan karakter að ná að komast aftur inn í leikinn og jafna hann og virðist þriðja lotan í þessum innbyrðis viðureignum þeirra, vera Ynjulotan. Mikil stemming virtist líka vera á bekknum hjá þeim sem smitaði yfir svellið til áhorfenda.
Bart Moran, þjálfari Ásynja, var sáttur eftir leikinn og sagði að hann hefði verið skemmtilegur og baráttan hörð. Bæði lið hefðu fengið sína möguleika og báðir markmenn staðið sig frábærlega í að verja sín mörk. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, vildi hins vegar ekki tjá sig um leikinn.
Mörk (stoðseningar) Ásynja: Anna Sonja 1 (1, Birna 1 (1), Eva 1 og Sarah (2)
Mörk (stoðsendingar) Ynja: Silvía 2 (1), Sunna 1 (1) og Ragnhildur (3)