Karfan er tóm.
Þegar fram fer heimsmeistaramót í íþróttagrein þar sem aldurstakmarkið er 50 ár á maður ekki beint von á því að "foreldrafélagið" sé með í för, ef þannig má að orði komast. Enn og aftur sannast þó það sem margir hafa haldið fram, að krullan er íþrótt fyrir alla aldurshópa. Í bandaríska kvennaliðinu sem nú keppir á Heimsmeistaramóti eldri leikmanna (50+) er kona að nafni Betty Kozai, innfæddur Hawaii-ingur sem flutti fyrir margt löngu til Seattle. Hún er 81s árs og hefur bara krullað í rúmlega 30 ár, byrjaði sem sagt um fimmtugt. Dóttir hennar er einnig stödd í Chelyabinsk og keppir þar fyrir hönd Bandaríkjanna á Heimsmeistaramótinu í tvenndarkeppni (Mixed Doubles). Mæðgurnar voru reyndar saman í liði Bandaríkjanna á Heimsmeistaramótinu 1980.
Af þessum tveimur heimsmeistaramótum sem nú fara fram í Chelyabinsk í Rússlandi er annars ýmsar skondnar sögur að segja. Gosið í Eyjafjallajökli hefur til að mynda ýmist tafið keppendur á leið þangað eða komið alveg í veg fyrir þátttöku þeirra. Væntanlegur keppandi á Ice Cup lenti hins vegar í hremmingum, bæði fyrir mistök Bandaríska krullusambandsins og vegna gossins.
Mistök hjá Bandaríska krullusambandinu urðu til þess að einn leikmaður liðsins fékk ekki að keppa. Sú heitir Linda Archer Cornfield og verður á meðal keppenda á Ice Cup þetta árið, ef ferðalag öskunnar úr Eyjafjallajökli leyfir. Liðið hennar frá Granite Curling Club í Seattle vann bandaríska meistaramótið í 50+ og þar með réttinn til að keppa fyrir hönd landsins á HM. Eiginmaður Lindu, David Cornfield, átti að fara með liðinu sem þjálfari. Þegar til kom reyndist Linda of ung því samkvæmt reglum WCF er miðað við að keppendur þurfi að hafa orðið fimmtugir í síðasta lagi 30. júní árið fyrir HM en Linda varð fimmtug í október í fyrra. Hún reyndist því ólögleg og fékk ekki að keppa á HM.
Linda og David ætluðu sem sagt á HM og síðan beint frá Rússlandi til Íslands til að taka þátt í Ice Cup 29. apríl til 1. maí. Í sárabót fyrir klúðrið með skráninguna á HM ákváðu þau að fara til Grikklands og í siglingu um Miðjarðarhafið áður en þau kæmu til Íslands. Sjaldan er ein báran stök því á leið sinni frá Seattle til Evrópu lentu þau í því að vera í síðustu flugvél sem lenti í London áður en allt lokaðist vegna öskunnar úr Eyjafjallajökli. Krullufréttaritari hefur reyndar ekki fregnir af því hvernig (eða hvort) þau komust frá London til Grikklands til að hefja þar siglinguna en væntanlega hafa þau ferðast með lestum eða rútum suður um Evrópu.
Fleiri "Íslandsvinir" hafa orðið fyrir truflunum vegna gossins og flugbannsins. Leikmaður í liði Wales, Chris Wells að nafni, sem hefur verið andstæðingur Íslendinga bæði á HM50+ og á EM í krullu, komst hreinlega ekki til Rússlands vegna flugbannsins og missir því af keppninni. Hann er reyndar ekki sá eini því karlaliðin frá Wales, Hollandi, Skotlandi og Eistlandi drógu sig úr keppninni, sem og kvennalið Skotlands í 50+ og lið Kanada, Suður-Kóreu, Noregs, Skotlands og Svíþjóðar í tvenndarkeppninni. Umræddur Chris sá spaugilegu hliðina á þessu og tjáði sig á Facebook (í lauslegri þýðingu):
"Fyrir svona heimsviðburði eru alvöru íþróttamenn eins og við á ströngu mataræði, neita sér um áfengi, stunda stífa þjálfun, fara í ræktina fjórum sinnum í viku og svo framvegis. Síðan getum við ekki farið út af ryki í háloftunum. Sem betur fer gerði ég ekkert af þessu."
Lið Lettlands sem keppir á HM í tvenndarkeppninni er skipað tveimur keppendum sem komu á Ice Cup 2007, hjónunum Ansis Regza og Dace Regza. Þau þurftu að leggja á sig langt og erfitt ferðalag vegna flugbannsins. Þau biðu eftir flugi frá Riga í þrjá daga en ekkert var í boði. Síðan ákváðu þau að taka lest, ferðalagið til Moskvu tók 16 og hálfan tíma, síðan tók við fjögurra og hálfs tíma ferðalag með leigubíl frá lestarstöðinni til Sheremetyevo flugvallarins í Moskvu. Þá biðu þau í allmarga tíma á flugvellinum, síðan tók við tveggja tíma flug til Yekaterinburg og svo þriggja tíma akstur á vegum skipuleggjenda til Chelyabinsk. Þangað komu þau klukkan eitt að nóttu og léku sinn fyrsta leik morguninn eftir.
Svipaða sögu er að segja af finnska liðinu í tvenndarkeppninni. Peter Landgren og Lotta Norri voru í 27 tíma á ferðalagi frá Finnlandi til Chelyabinsk í Rússlandi. Síðasta vél frá Helsinki fór í loftið tíu mínútum áður en þeirra vél átti að fara. Síðan var öllu lokað. Þau komu til Chelyabinsk klukkan níu að kvöldi, fóru beint á æfingu og svo í leik daginn eftir. Mike Calcagno og Sharon Vukich (áðurnefnd), sem skipa bandaríska liðið í tvenndarkeppninni, áttu sér einskis ills von þegar þau biðu eftir flugi og Mike fékk spurningu á Facebook: "Hefur askan haft áhrif á þínar ferðir?" Hann kom af fjöllum því hann hafði ekkert heyrt af ösku og flugbanni. Það var eins og við manninn mælt, hann átti flug frá Houston sem var fellt niður. Einhvern veginn komst hann þó til Los Angeles og með fortölum og persónutöfrum yfirmanna frá Singapore Airlines tókst honum að fá síðustu sæti í vél frá Los Angeles til Rússlands með vél frá Aeroflot. Þau náðu að sofa vel í vélinni enda eins gott því þegar þau komu á áfangastað í Chelyabinsk höfðu þau rétt tíma til að fara í sturtu og borða morgunverð áður en þau fóru í keppnishöllina og svo beint út á ísinn í fyrsta leik. Það virtist ekki koma að sök því LSD-skot Mikes var beint á punktinn!
Þessa löngu frétt er svo rétt að enda á því að nefna að í keppnishöllinni í Chelyabinsk eru hvorki meira né minna en fjórtán krullubrautir hlið við hlið. Það er líklega með því mesta sem gerist á einu og sama mótinu, hvað þá í einni og sömu höllinni. Eða eins og einn keppandinn sagði: "Ég hef aldrei áður keppt á braut K!" - Myndir úr höllinni má meðal annars finna á vef WCF hér: http://worldcurling.org/world-championships-opening-ceremony#